Danir eru Ólympíumeistarar í handbolta karla eftir að þeir gjörsigruðu Þjóðverja með þrettán marka mun, 39-26 í úrslitaleiknum. Alfreð Gíslason þjálfari Þjóðverja má engu að síður vera stoltur af silfurverðlaunum fyrir sína menn.
EPA-EFE/ALEX PLAVEVSKI
Eftir að Þjóðverjar minnkuðu muninn í 5-6 í fyrri hálfleik skoruðu Danir sex mörk í röð og leikurinn varð aldrei spennandi eftir það. Danir voru níu mörkum yfir í hálfleik 21-12 og náðu mest fimmtán marka forystu í seinni hálfleik.
EPA-EFE/ALEX PLAVEVSKI
Þetta er annar Ólympíumeistaratitill Dana en þann fyrri unnu þeir undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar í Ríó í Brasilíu árið 2016. Danir tóku svo silfrið á síðustu leikum. Spánverjar unnu bronsið í morgun með eins marks sigri á Slóveníu í æsispennandi leik, 23-22.