Aftur Ólympíumet í maraþoni
Ólympíuleikunum lýkur í dag og verður keppt um þrettán gullverðlaun á lokakeppnisdeginum. Sifan Hassan frá Hollandi sló Ólympíumet í maraþonhlaupi kvenna í morgun. Eftir æsispennandi lokasprett kom Hassan í mark þremur sekúndum á undan Tigst Assefa frá Eþíópíu sem varð önnur og hlupu þær báðar undir gamla metinu.
Hassan hljóp maraþonið á tveimur klukkustundum, 22 mínútum og 55 sekúndum eða tólf sekúndum undir gamla metinu. Þetta eru þriðju verðlaun Hassan á leikunum í París því hún vann bronsið í bæði 5000 og 10000 metra hlaupum.
Nýtt Ólympíumet var því slegið bæði í karla- og kvennaflokki í maraþonkeppni leikanna því í gær varð Tamirat Tola frá Eþíópíu nokkuð óvænt Ólympíumeistari í maraþoni karla á 2 klukkutímum og 6,26 mínútum. Tola komst óvænt inn á leikana í París fyrir tveimur vikum sem varamaður Eþíópíumanna og því fæstir sem bjuggust við að sjá hann koma fyrstan í mark.