11. ágúst 2024 kl. 12:35
Íþróttir
Ólympíuleikar 2024

Aftur Ól­ymp­íu­met í mara­þoni

Ólympíuleikunum lýkur í dag og verður keppt um þrettán gullverðlaun á lokakeppnisdeginum. Sifan Hassan frá Hollandi sló Ólympíumet í maraþonhlaupi kvenna í morgun. Eftir æsispennandi lokasprett kom Hassan í mark þremur sekúndum á undan Tigst Ass­efa frá Eþíópíu sem varð önnur og hlupu þær báðar undir gamla metinu.

Hassan hljóp maraþonið á tveimur klukkustundum, 22 mínútum og 55 sekúndum eða tólf sekúndum undir gamla metinu. Þetta eru þriðju verðlaun Hassan á leikunum í París því hún vann bronsið í bæði 5000 og 10000 metra hlaupum.

Sifan Hassan of the Netherlands (R) crosses the finishing line to win the Women's Marathon event of the Athletics competitions as Tigst Assefa of Ethiopia comes in second in the Paris 2024 Olympic Games in Paris, France, 11 August 2024.
EPA-EFE/YOAN VALAT

Nýtt Ólympíumet var því slegið bæði í karla- og kvennaflokki í maraþonkeppni leikanna því í gær varð Tamirat Tola frá Eþíópíu nokkuð óvænt Ólympíumeistari í maraþoni karla á 2 klukkutímum og 6,26 mínútum. Tola komst óvænt inn á leikana í París fyrir tveimur vikum sem varamaður Eþíópíumanna og því fæstir sem bjuggust við að sjá hann koma fyrstan í mark.