9. ágúst 2024 kl. 15:08
Íþróttir
Ólympíuleikar 2024

Tryggði flótta­manna­liði Ól­ymp­íu­leik­anna fyrstu verð­laun­in

Hnefaleikakonan Cindy Ngamba vann í gærkvöld til bronsverðlauna á Ólympíuleikunum en hún keppir fyrir lið flóttamanna á leikunum. Þetta er í fyrsta sinn sem íþróttamaður úr flóttamannaliði Ólympíuleikanna vinnur til verðlauna. Ngamba komst í undanúrslit en tapaði þar fyrir Atheynu Bylon frá Panama. Ekki er keppt um bronsið og því fá Cindy, og Caitlin Parker frá Ástralíu, báðar brons.

Cindy Ngamba hnefaleikakona
EPA

36 íþróttamenn í tólf greinum eru í liði flóttamanna í París. Til þess að komast í liðið þarf að sýna fram á góðan árangur í sinni keppnisgrein og þá þarf Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna að viðurkenna flóttamannastöðu íþróttamannanna.

Cindy Ngamba er fædd í Kamerún en hefur verið búsett á Englandi síðustu fimmtán ár. Hún hefur oft sótt um breskt ríkisfang en umsókninni alltaf verið hafnað. Hún er sú fyrsta til að keppa í hnefaleikum fyrir lið flóttamanna á Ólympíuleikum.