Er Nafi Thiam sú besta frá upphafi?
Belginn Nafissatou Thiam varði Ólympíumeistaratitil sinn í sjöþraut öðru sinni er hún vann sitt þriðja Ólympíugull í greininni í kvöld. Thiam er sú fyrsta í sögunni til þess að vinna titilinn þrisvar sinnum, hvað þá þrisvar í röð. Raunar er hún sú eina sem hefur unnið fjölþraut í frjálsíþróttum þrisvar sinnum en það hefur engum karli tekist í tugþrautinni.
Thiam hefur háð harða keppni við Bretann Katarina Johnson-Thompson í gegnum árin og hún varð önnur í kvöld, aðeins 36 stigum á eftir Thiam. Í þriðja sæti varð Noor Vidts sem er einnig frá Belgíu.
Thiam eltist enn við heims- og Ólympíumet Jackie Joyner-Kersee sem hún setti á Ólympíuleikunum í Seoul 1988. Heimsmetið er 7291 stig en Thiam á best 7013 stig frá því 2017 sem er þriðji besti árangur allra tíma á eftir Joyner-Kersee og Svíanum Carolina Klüft.
Thiam lauk keppni með 6880 stig á Ólympíuleikunum í París.