40 ár frá bronsi Bjarna á Ólympíuleikunum
Bjarni sat hjá í 1. umferð en hafði svo betur á móti Carsten Jansen frá Danmörku í 2. umferð og vann svo afar sterkan sigur á Leo White frá Bandaríkjunum í 3. umferð. Bjarni tapaði hins vegar fyrir Douglas Vieira frá Brasilíu í undanúrslitunum en sigraði Ítalann Yuri Fazi í bronsglímu.
„Við vissum í sjálfu sér ekki mikið um þennan Ítala. En maður sér það strax og þeir byrjuðu að glíma, að hann réði ekki við Bjarna í þeim ham sem hann var,“ sagði Gísli Þorsteinsson þjálfari Bjarna í þættinum Íþróttaafrek Íslendinga sem RÚV gerði 2016.
„Það var ekki fyrr en um kvöldið þegar maður fór að skoða verðlaunapeninginn einn inni í herbergi að maður áttaði sig á því að þetta væri ekki alveg sjálfsagt að vinna til verðlauna á Ólympíuleikum,“ sagði Bjarni í þættinum frá 2016 sem má sjá hér í færslunni.