Athugið að þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul

„Stefnan er að vera á meðal þeirra bestu í heimi eftir fjögur ár“

Erna Sóley Gunnarsdóttir segir það ólýsanlega tilfinningu að keppa á sínum fyrstu Ólympíuleikum. Hún endaði í 20. sæti í undankeppni kúluvarpsins í morgun og kastaði lengst 17,39. Markið er sett hátt fyrir næstu Ólympíuleika.

Helga Margrét Höskuldsdóttir

,

Erna kastaði fyrir framan stútfullan Stade de France sem hún segir ólíkt þeim stórmótum sem hún hefur hingað til keppt á.

„Að labba inn með svona mikið af fólki, maður getur ekki lýst þessu, þetta er ótrúlega mikil orka sem maður fær, þetta er bara það besta sem ég hef gert.“

Erna kom inn í 31. sæti en endaði í 20. sæti. Þónokkrir keppendur náðu sér ekki á strik.

„Mjög margar sem eru betri en ég á blaðinu en ég bara fór út og ég gerði mitt og vissi hvar ég er og ég er bara ofboðslega ánægð með það.“

Hún er staðráðin í að þetta verði ekki hennar síðustu Ólympíuleikar.

„Stefnan er að vera á meðal þeirra bestu í heimi eftir fjögur ár, öll orkan fer bara í það að verða best og þetta verður bara ótrúlega gaman, ég er spennt fyrir þessari vegferð.“

Viðtalið við Ernu má sjá hér að ofan.

Fleiri íþróttafréttir

Aðrir eru að lesa

Annað efni frá RÚV