„Orð fá því ekki lýst hvað þetta er þröngt“
Hrafnhildur Lúthersdóttir er meðal fremstu sundkvenna þjóðarinnar fyrr og síðar og náði t.a.m. sjötta sæti í 100 metra bringusundi á Ólympíuleikunum í Ríó 2016. Vigdís skoraði Hrafnhildi á hólm í greininni enda segist Hrafnhildur langt frá keppnisforminu sem hún var í á leikunum 2016.
„Ég kemst ekki í sama galla og þá en sjáum til,“ sagði Hrafnhildur sem hjálpaði svo Vigdísi að komast í keppnisgalla líka. „Ég fékk lánaðan þennan keppnisbúning og orð fá því ekki lýst hvað þetta er þröngt,“ sagði Vigdís og bætti við; „Við vorum hálftíma að koma okkur í þá og Hrafnhildur sem ég var að hitta í fyrsta skipti, er búin að snerta mjög mikið á mér rassinn. Afsakið RÚV.“
Án þess að orðlengja það frekar vann Hrafnhildur öruggan sigur í einvíginu en sjón er sögu ríkari.