Noah Lyles vann bronsið þrátt fyrir covid
Bandaríski spretthlauparinn Noah Lyles vann ögn óvæntan sigur í 100 metra hlaupi karla á sunnudag. Lyles er þekktari sem 200 metra hlaupari og hafði fyrir leikana í París gefið út að hann ætlaði sér að slá heimsmet í París.
Ekki tókst ætlunarverkið í 100 metrunum en Lyles átti enn möguleika, hversu raunhæft sem það nú var, á að slá heimsmet í kvöld. Svo fór þó ekki en Lyles endaði þriðji, rétt eins og í Tókýó fyrir þremur árum.
Eftir hlaupið í kvöld sást Lyles sitja á hlaupabrautinni umkringdur heilbrigðisstarfsfólki og leit ekki vel út. Hann hefur nú staðfest að hafa greinst með covid fyrir tveimur dögum en ákveðið að hlaupa engu að síður.
Noah Lyles vann Ólympíubrons tveimur dögum eftir að hann greindist með covid 😷 pic.twitter.com/tP9OqEtX3X
— RÚV Íþróttir (@ruvithrottir) August 8, 2024