Anton Sveinn náði ekki kjöri í íþróttamannanefndina
Anton Sveinn McKee, sundmaður, náði ekki kjöri í íþróttamannanefnd Alþjóðaólympíunefndarinnar. 29 frambjóðendur voru í kjöri en aðeins fjögur fengu sæti, þar á meðal stórstjarnan og hlaupakonan Allyson Felix frá Bandaríkjunum.
Anton er fyrsti Íslendingurinn til að bjóða sig fram í nefndina en hann hefur staðið í kosningabaráttu í Ólympíuþorpinu síðan hann lauk sjálfur þátttöku á leikunum. Rúmlega 6500 keppendur kusu.
Auk Allyson Felix, sem hefur sjö sinnum orðið Ólympíumeistari, voru það þýska fimleikakonan Kim Bui, ástralska kanósiglingakonan Jessica Foz og nýsjálenski tennisspilarinn Marcus Daniell sem náðu kjöri. Bui keppti á þremur Ólympíuleikum og átta heimsmeistaramótum, Fox er þrefaldur ólympíumeistari og Daniell fékk bronsverðlaun á leikunum í Tókýó.