„Um leið og ég labbaði inn í þorpið þá sá ég Victor Wembanyama“
„Ég er náttúrlega búin að reyna að ímynda mér þetta,“ sagði Erna Sóley um komu sína í Ólympíuþorpið. „En það er engin tilfinning sem lýsir því fyrr en þú ert komin þarna inn. Um leið og ég labbaði inn í þorpið þá sá ég Victor Wembanyama, risastóran franskan körfuboltamann, og maður getur ekkert undirbúið sig almennilega fyrir það en þetta er búið að vera alveg geggjað.“
Erna Sóley segist vera í mjög góðu standi og tilbúin í að keppa. Hún setti Íslandsmetið fyrir rétt rúmum mánuði síðan.
„Ég hef ekki mikið keppt síðan þá en hef átt góðar æfingar og góðan feril síðan þá. Þannig að ég veit að ég get náð Íslandsmetinu og meira, myndi ég segja.“
Hana langar að sjálfsögðu að komast áfram upp úr forkeppninni en segir samkeppnina harða og erfitt að komast í topp 12 sem fara í úrslitin.