Hocker óvæntur sigurvegari á nýju Ólympíumeti
Bandaríkjamaðurinn Cole Hocker vann óvæntan sigur í 1500 metra hlaupi karla í frjálsíþróttakeppni Ólympíuleikanna í kvöld á nýju Ólympíumeti. Mikil eftirvænting var fyrir úrslitunum í 1500 metrunum þar sem fyrirfram var búist við einvígi um sigurinn milli erkifjendanna Josh Kerr frá Bretlandi og Norðmannsins Jakobs Ingebrigtsen.
En hvorugur þeirra stóð uppi sem Ólympíumeistari í kvöld því Bandaríkjamaðurinn Cole Hocker kom óvænt fyrstur í mark á nýju Ólympíumeti eftir frábæran endasprett, þremur mínútum og 27,65 sekúndum. Josh Kerr varð annar og Bandaríkjamaðurinn Yared Nuguse tók bronsið en Ingebrigtsen stífnaði upp á lokametrunum, komst ekki á verðlaunapall og varð í fjórða sæti. Sá norski sem var ríkjandi Ólympíumeistari átti gamla Ólympíumetið, 3:28,32 mínútur.