Athugið að þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul

Samantekt

Spánverjar skrifuðu sig í sögubækurnar

Jóhann Páll Ástvaldsson

,
14. júlí 2024 kl. 21:49

EM lokið!

Þá er þessu Evrópumóti formlega lokið. Við segjum þessari fréttavakt einnig lokið. Takk fyrir okkur! - Jóhann Páll Ástvaldsson kveður.

14. júlí 2024 kl. 21:11 – uppfært

Rodri valinn bestur og Yamal besti ungi

Verið er að veita verðlaun fyrir frammistöður á mótinu. Rodri var valinn bestur allra á mótinu og ungstirnið Lamine Yamal besti ungi leikmaðurinn.

Rodri stýrði miðjuspili Spánverja á mótinu en fór meiddur af velli í hálfleik. Þessi 28 ára gamli miðjumaður steig varla feilspor á mótinu. Hann skoraði eitt mark.

Lamine Yamal fagnar marki sínu fyrir Spánverja gegn Frökkum á EM karla í fótbolta 2024
Yamal fagnar marki sínu gegn Frakklandi.EPA

Lamine Yamal sló hvert metið á fætur öðru á mótinu. Hann varð yngsti markaskorari í sögu mótsins en auk þess varð hann yngsti leikmaðurinn til að spila í úrslitaleik. Hann sló þar met Renato Sanches frá EM 2016.

Olmo, Kane, Mikautadze, Schranz, Gakpo og Musiala eru allir markahæstir á mótinu með þrjú mörk og hljóta því allir gullskóinn. UEFA gaf það út að ekki yrði skorið úr um hver yrði markahæstur með fjölda mínútna eða stoðsendinga.

14. júlí 2024 kl. 21:00 – uppfært

Umfjöllun: Spánverjar eru bestir í Evrópu

Spánverjar eru Evrópumeistarar í fótbolta eftir frækinn sigur gegn Englandi. Liðið skrifaði sig í sögubækurnar en nú hafa Spánverjar orðið Evrópumeistarar oftast allra - eða fjórum sinnum. Spánverjar unnu árin 1964, 2008 og 2012 en auk þess töpuðu þeir í úrslitaleik 1984.

Spánverjar eru verðugir meistarar á þessu móti. Liðið vann alla sjö leiki sína á mótinu og spiluðu á köflum glimrandi fótbolta.

Myndir úr leik Englands og Spánar í úrslitaleik EM karla í fótbolta 2024
Pickford lætur varnarmenn sína heyra það.EPA

Leikurinn fór rólega af stað en spænska liðið hélt mun betur í boltann. Spánverjar settu gríðarlega pressu á Englendinga er þeir rauðklæddu töpuðu boltanum. Fyrri hálfleikur var afar rólegur og Spánverjar fundu ekki glufuna í enska varnarmúrnum.

Hætta skapaðist við mark Spánverja undir lok hálfleiksins er Carvajal tapaði boltanum. Harry Kane fékk boltann við teiginn en Rodri komst á ótrúlegan máta fyrir skot hans. Við það meiddist Rodri. Skömmu síðar fengu Englendingar aukaspyrnu. Boltinn barst til Phil Foden sem átti skot sem rataði þó í hramma Unai Simon. Staðan var því markalaus í hálfleik.

Myndir úr leik Englands og Spánar í úrslitaleik EM karla í fótbolta 2024
Rodri meiddist við að stöðva þetta skot Kane.EPA

Fjörið fór af stað í seinni

Það dró svo sannarlega til tíðinda í upphafi seinni hálfleiks. Utanfótarsending Carvajal skar sig í gegnum miðju Englendinga og boltinn barst til Yamal. Ungstirnið keyrði á vörnina og fann Nico Williams á fjærstönginni. Williams var ekkert að tvínóna við hlutina og setti boltann með vinstri fæti fram hjá Walker og Pickford. Markið kom á 46. mínútu leiksins.

Myndir úr leik Englands og Spánar í úrslitaleik EM karla í fótbolta 2024
Kane fór út af í byrjun seinni hálfleiks.EPA

Spánverjar héldu áfram að berja á vörn Englendinga næstu mínútur. Dani Olmo fékk ágætis færi og Morata einnig en þeir hittu hvorugir á markrammann.

Gareth Southgate var þá nóg boðið og skipti hann markaskoraranum og fyrirliðanum Harry Kane út af. Inn í hans stað kom Ollie Watkins. Lítið hafði sést til Kane í leiknum. Við markið opnaðist leikurinn enda þurftu Englendingar að freysta þess að sækja.

Myndir úr leik Englands og Spánar í úrslitaleik EM karla í fótbolta 2024
Palmer skorar mark sitt.EPA

Pickford var vel á verði á 66. mínútu er hann varði skot Lamine Yamal. Southgate freistaði þá aftur gæfunnar með að breyta um liðsskipan. Hann tók Kobbie Mainoo út af fyrir Cole Palmer.

Það bar ávöxt skömmu síðar. Saka braust upp hægri vænginn og fann Jude Bellingham. Bellingham lagði boltann út á Palmer sem átti innanfótar skot sem Simon náði ekki að verja. Markiðkom á 72. mínútu.

Myndir úr leik Englands og Spánar í úrslitaleik EM karla í fótbolta 2024
Williams og Yamal fagna.EPA

Spánverjar prjónuðu sig í gegnum ensku vörnina á 81. mínútu en skot Yamal fór beint á Pickford. Þessi trítílóði markvörður stóð vaktina vel í kvöld.

Yamal sló met í kvöld er hann varð yngsti leikmaðurinn til að spila til úrslita á EM. Metið átti Renato Sanches sem var 18 ára og 327 daga gamall er hann byrjaði í úrslitaleik EM 2016 með Portúgölum.

Myndir úr leik Englands og Spánar í úrslitaleik EM karla í fótbolta 2024
Oyarzabal skorar sigurmarkið.EPA

Oyarzabal kom Spánverjum aftur yfir eftir 86. mínútna leik. Olmo fann Cucurella á vinstri vængnum, sem átti frábæra fyrirgjöf á Oyarzabal sem tæklaði boltann í netið af skömmu færi.

Skömmu síðar fengu Englendingar hættuleg færi í þrígang. Declan Rice skallaði áður en Dani Olmo varði skalla Guehi á marklínu. Seinni skalli Rice fór svo einnig yfir.

Myndir úr leik Englands og Spánar í úrslitaleik EM karla í fótbolta 2024
Oyarzabal fagnar marki sínu.EPA

Mun fótboltinn einhvern tímann koma heim?

Englendingar komust ekki nær og Spánverjar eru því Evrópumeistarar - og það fyllilega verðskuldað. Luis de la Fuente er einn af sigurvegurum þessa móts en þessi Spánverji hafði mest megnis þjálfaði yngri landslið Spánverja áður en hann við A liðinu árið 2022.

Englendingar liggja í sárum sínum eftir tapið, en þetta var í annað skipti í röð sem liðir tapar í úrslitaleik. Biðin eftir titli er nú orðin 58 ár og verður 60 ár hið minnsta. England er það lið sem hefur oftast leikið á EM án þess að vinna mótið, eða 45 sinnum alls. Einhverjir þeirra kunna að spyrja sig hvort að fótboltinn muni nokkurn tíma kom heima.

14. júlí 2024 kl. 20:51

Spánverjar komast yfir!

Oyarzabal kom Spánverjum aftur yfir eftir 86. mínútna leik. Olmo fann Cucurella á vinstri vængnum, sem átti frábæra fyrirgjöf á Oyarzabal sem tæklaði boltann í netið af skömmu færi.

Skömmu síðar fengu Englendingar hættuleg færi í þrígang. Declan Rice skallaði áður en Dani Olmo varði skalla Guehi á marklínu. Seinni skalli Rice fór svo einnig yfir.

14. júlí 2024 kl. 20:36

Palmer jafnar metin

Cole Palmer jafnaði metin fyrir Englendinga með hnitmiðuð skoti fyrir utan teig. Saka braust upp hægri vænginn og fann Jude Bellingham. Bellingham lagði boltann út á Palmer sem átti innanfótar skot sem Simon náði ekki að verja.

Palmer hafði komið inn af bekknum skömmu áður fyrir Kobbie Mainoo.

14. júlí 2024 kl. 20:20

Watkins inn fyrir Kane

Gareth Southgate gerir fyrstu breytingu sína. Markaskorarinn og fyrirliðinn Harry Kane fer út af fyrir Ollie Watkins. Kyle Walker fékk fyrirliðabandið.

Kane var kominn með gult spjald og hafði lítið sést í leiknum.

Watkins gerði sigurmarkið gegn Hollendingum í uppbótartíma undanúrslitaleiksins gegn Hollandi. Það verður fróðlegt að sjá hvernig honum gengur í kvöld.

14. júlí 2024 kl. 20:16

Spánverjar í sókn

Spánverjar eru að láta finna fyrir sér þessa stundina. Dani Olmo átti hættulegt færi skömmu eftir markið.

Alvaro Morata átti skot sem John Stones stöðvaði á 54. mínútu. Skömmu síðar átti Nico Williams hættulegt skot. Englendingar þurfa að ná stjórn á leiknum aftur ef þeir ætla sér eitthvað í þessum leik.

14. júlí 2024 kl. 20:10 – uppfært

Spánverjar komast yfir

Nico Williams er búinn að koma Spánverjum yfir í upphafi seinni hálfleiks.

Dani Carvajal splundraði pressu Englendinga með sendingu á Lamine Yamal. Yamal óð inn á teigin og fann Williams á fjærstönginni. Honum brást ekki bogalistin og setti knöttinn fram hjá Walker og Pickford.

Spánverjar leiða því 1-0 þegar 50 mínútur eru liðnar.

Rodri fór meiddur af velli í hálfleik og Zubimendi kom inn á í hans stað. Hinn 25 ára Zubimendi spilar með Real Sociedad í heimalandinu.

14. júlí 2024 kl. 19:49

Flautað til hálfleiks

Dómarinn hefur flautað til hálfleiks. Við bíðum enn eftir fyrsta marki leiksins, en það kemur að lokum.

Vonandi gefur fjörið undir lok fyrri hálfleiks til kynna að fram undan sé veisla í seinni hálfleik.

14. júlí 2024 kl. 19:46

Hætta!

Hætta skapaðist við mark Spánverja er Carvajal tapaði boltanum. Harry Kane fékk boltan við teiginn en Rodri komst á ótrúlegan máta fyrir skot hans.

Skömmu síðar fengu Englendingar aukaspyrnu. Boltinn barst til Phil Foden sem átti skot sem rataði þó í hramma Unai Simon.

14. júlí 2024 kl. 19:41

Biðin eftir markinu

Jude Bellingham klobbaði Rodri rétt í þessu og voru það tilþrif leiksins til þessa. Hann tapaði þó boltanum skömmu síðar. Englendingar eiga í miklum erfiðleikum með að halda boltanum en þeir verjast með fjölda manna.

Spánverjar finna ekki glufuna í enska varnarmúrnum.

Dani Olmo fékk gult spjald áðan fyrir glæfralega tæklingu.

Enn er markalaust eftir 40 mínútna leik. En það tekur örskamma stund að skora mark í fótbolta. Við það mun allt breytast.

14. júlí 2024 kl. 19:28

Kane fær gult

Leikurinn opnaðist rétt í þessu og Harry Kane fékk fyrsta gula spjald leiksins fyrir glæfralega tæklingu.

Luke Shaw braust upp vinstri vænginn rétt áður og hætta myndaðist inn í teig Spánar. Sóknin fjaraði hins vegar úr.

Enn er markalaust eftir 28 mínútna leik.

14. júlí 2024 kl. 19:18

Fjör færist í leika

Englendingar sýndu lífsmark. Þeir brutu pressu Spánverja í fyrsta sinn og fengu horn eftir fyrirgjöf Kyle Walker. Walker hafði skömmu áður komist í hann krappann er hann kveinkaði sér eftir að hafa tæklað de la Fuente þjálfara Spánverja.

Englendingar hafa nú í tvígang komist í stöður fyrir utan teig Spánverja. Fyrst var það Declan Rice og svo Phil Foden.

Enn er markalaust eftir 18 mínútna leik.

14. júlí 2024 kl. 19:10

Spánverjar stýra för

Leikurinn hefur farið rólega af stað. Spánverjar hafa verið mun meira með boltann og fært hann kantana á milli.

Englendingar hafa enn ekki, eftir níu mínútna leik, náð spilkafla.

Vel heyrist í stuðningsmönnunum 75.000 sem á vellinum eru.

Luke Shaw hefur tekið tvisvar á Lamine Yamal þegar hann hefur fengið boltann. Þeirra einvígi verður afar áhugavert í kvöld.

14. júlí 2024 kl. 18:59

Leikar eru að hefjast!

Þjóðsöngvarnir tveir eru búnir að óma um leikvanginn í Berlín.

Þessi leikur er að hefjast! Njótið, kæru áhorfendur!

14. júlí 2024 kl. 18:35

Afmælisdrengirnir tveir

Tvíeyki Spánverja á köntunum, þeir Nico Williams og Lamine Yamal, hafa báðir nýverið fagnað afmæli sínu.

Yamal átti afmæli í gær og Williams í fyrradag. Þeir hafa verið ansi sprækir á köntunum og gætu gert Bukayo Saka og Luke Shaw lífið leitt í kvöld.

Yamal varð yngsti markaskorari í sögu EM með stórkostlegu marki sínu gegn Frökkum í undanúrslitum.

14. júlí 2024 kl. 18:23

Verða sex, eða fleiri, markahæstir?

Uppi er óvenjuleg staða varðandi markahæstu leikmenn mótsins. Það gæti vel farið svo að sex leikmenn endi jafnir sem markahæstir á EM. UEFA hefur gefið út að þeir verði að sætta sig við að deila gullskónum ef svo fer.

Dani Olmo og Harry Kane gætu orðið markahæstir, en þeir þurfa bara eitt mark til. Þá er Fabian Ruiz með tvö mörk en aðrir markaskorarar liðanna tveggja

Á fyrri mótum hefur verið skorið úr um hvaða leikmaður hreppir gullskóinn einn og sér. Það hefur verið til dæmis stoðsendingar eða fjöldi spilaðra mínútna.

Í ár hefur UEFA, evrópska knattspyrnusambandið, gefið út að ef leikmenn verði jafnir að móti loknu skuli þeir deila gullskónum. Á síðasta Evrópumóti fékk Ronaldo gullskóinn þar sem hann gaf eina stoðsendingu en Patrick Schick enga. Báðir skoruðu þeir fimm mörk á mótinu.

  • Shranz - 334 mínútur (83,5 mínútur í leik) - 0 stoðsendingar - 5 skot (4 leikir spilaðir)
  • Olmo - 341 mínúta (56,84 mínútur í leik) - 2 stoðsendingar - 15 skot (5 leikir spilaðir)
  • Mikautadze - 346 mínútur (86,5 mínútur í leik) - 1 stoðsending - 7 skot (4 leikir spilaðir)
  • Musiala - 423 mínútur (84,6 mínútur í leik) - 0 stoðsendingar - 10 skot (5 leikir spilaðir)
  • Gakpo - 525 mínútur (87,5 mínútur í leik) - 1 stoðsending - 12 skot (6 leikir spilaðir)
  • Kane - 544 mínútur (90,67 mínútur í leik) - 0 stoðsendingar - 17 skot (6 leikir spilaðir)
14. júlí 2024 kl. 18:07

Shaw byrjar!

Liðin hafa tilkynnt byrjunarlið sín. Vinstri bakvörðurinn Luke Shaw kemur inn í liðið. Hann var meiddur fyrir mót en engu að síður valinn. Í átta liða úrslitum og undanúrslitum kom hann varamannabekknum en byrjar nú í stað Kieran Trippier.

Luke Shaw í baráttunni gegn Xavi Simons í undanúrslitaleik Englands gegn Hollandi á EM karla í fótbolta 2024.
Luke Shaw í baráttunni gegn Xavi Simons í undanúrslitaleiknum gegn HollandiEPA

England (3-4-2-1)

Markvörður: Jordan Pickford.
Varnarmenn: Luke Shaw, Marc Guéhi, John Stones, Kyle Walker og Bukayo Saka.
Miðjumenn: Declan Rice, Kobbie Mainoo, Jude Bellingham og Phil Foden.
Sóknarmenn: Harry Kane.

Spánn (4-2-3-1)

Markvörður: Unai Simón
Varnarmenn: Marc Cucurella, Aymeric Laporte, Robin le Normand, Dani Carvajal
Miðjumenn: Fabián Ruiz, Rodri
Sóknarmenn: Nico Williams, Dani Olmo, Lamine Yamal, Álvaro Morata

14. júlí 2024 kl. 18:01 – uppfært

Myndaveisla: Leikmenn virða aðstæður fyrir sér

Leikmennirnir eru mættir út á grasið og virða aðstæður fyrir sér. Það rigndi fyrr í dag í Berlín en nú hefur stytt up. Það eru sem sagt kjöraðstæður fyrir frábæran fótboltaleik.

Fyrir leik Englands gegn Spáni í úrslitum EM karla í fótbolta 2024
Mynd: Gunnar BirgissonEPA

Gunnar Birgisson tók myndskeiðið hér að neðan af vellinum.

Fyrir leik Englands gegn Spáni í úrslitum EM karla í fótbolta 2024
EPA

Fyrir leik Englands gegn Spáni í úrslitum EM karla í fótbolta 2024
EPA

Fyrir leik Englands gegn Spáni í úrslitum EM karla í fótbolta 2024
EPA

Fyrir leik Englands gegn Spáni í úrslitum EM karla í fótbolta 2024
EPA

Fyrir leik Englands gegn Spáni í úrslitum EM karla í fótbolta 2024
EPA

Fyrir leik Englands gegn Spáni í úrslitum EM karla í fótbolta 2024
EPA

Fyrir leik Englands gegn Spáni í úrslitum EM karla í fótbolta 2024
EPA

14. júlí 2024 kl. 17:43 – uppfært

Teymi RÚV ytra

Gunnar Birgisson er ásamt Frey Alexanderssyni á Ólympíuleikvanginum í Berlín. Þeir tveir munu gera leiknum góð skil. Gunnar lét Frey fara yfir mótið en þjálfarinn fór yfir bestu leikmennina á mótinu, flottustu mörkin, mestu vonbrigðin og stærstu augnablikin.

Myndskeiðið má sjá hér að neðan, en athugið að ef að notendur hafa ekki samþykkt vafrakökur sjá þeir það ekki. Í þeim tilvikum má finna myndbandið á X síðu íþróttadeildar RÚV.

Freyr þjálfar lið Kortrijk í belgísku úrvalsdeildinni.

Upphitun hefst 18:15 í Stofunni. Sérfræðingateymi Stofunnar í dag mynda þau Óskar Hrafn Þorvaldsson, Adda Baldursdóttir og Hjörvar Hafliðason. Kristjana Arnarsdóttir stýrir Stofunni.

Athugið að ef leikurinn fer í framlengingu og/eða vítaspyrnukeppni mun útsendingin halda áfram á RÚV. Fréttir hefjast að leik loknum. Stofan verður á RÚV2 eftir leik.

14. júlí 2024 kl. 17:37

Byrjar Luke Shaw?

Dani Carvajal og Robin le Normand snúa að öllum líkindum aftur í byrjunarlið Spánar, eftir að hafa verið í banni í undanúrslitum gegn Frakklandi.

Stærstu spurningarmerkin varðandi liðsuppstillingu Gareth Southgate er eflaust hvort að vinstri bakvörðurinn Luke Shaw byrji leikinn í stað Kieran Trippier. Shaw var meiddur þegar leikar hófust í Þýskalandi en hefur komið inn á síðustu tveimur leikjum.

Ofurtölva Opta Analyst metur sigurlíkur Spánverja í venjulegum leiktíma sem 40,7% en líkurnar eru 28,5% að England beri sigur úr bítum í venjulegum leiktíma. Talið er að 30,5% líkur séu á að leikurinn fari í framlengingu.

Players of England celebrate the equalizer during the UEFA EURO 2024 quarter-finals soccer match between England and Switzerland, in Dusseldorf, Germany, 06 July 2024.
Englendingar fagna marki.EPA-EFE/MOHAMED MESSARA

Búist er við því að liðin stilli svona upp

Spánn (4-2-3-1)

Markvörður: Unai Simón
Varnarmenn: Marc Cucurella, Aymeric Laporte, Robin le Normand, Dani Carvajal
Miðjumenn: Fabián Ruiz, Rodri
Sóknarmenn: Nico Williams, Dani Olmo, Lamine Yamal, Álvaro Morata

England (3-4-2-1)

Markvörður: Jordan Pickford.
Varnarmenn: Kieran Trippier, Marc Guéhi, John Stones, Kyle Walker og Bukayo Saka.
Miðjumenn: Declan Rice, Kobbie Mainoo, Jude Bellingham og Phil Foden.
Sóknarmenn: Harry Kane.

14. júlí 2024 kl. 17:30

Bæði lið með söguna með sér í liði

Spænsk landslið og félagslið hafa ekki tapað úrslitaleik gegn liði frá öðru landi frá árinu 2001. Síðan þá hafa spænsk lið unnið 22 úrslitaleiki í Meistaradeild, Evrópudeildinni, Heimsmeistaramótinu og Evrópumótinu. Þá hafa spænsk lið fjórum sinnum mæst í úrslitaleik (Real Madrid gegn Atletico Madrid í úrslitaleik Meistaradeildar 2014 og 2016 og Sevilla gegn Espanyol auk Atletico Madrid gegn Athletic Bilbao í úrslitaleik Evrópudeildarinnar 2007 og 2012).

Lamine Yamal fer fyrir liðsfélögum sínum í spænska landsliðinu í fótbolta á EM 2024
Ungstirnið Yamal hefur slegið í gegn á mótinu.EPA

Árið 2001 vann Liverpool lið Alaves í úrslitaleik UEFA bikarsins og nokkrum dögum síðar tapaði Valencia gegn Bayern Munchen í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Síðan þá hafa spænsk lið ekki tapað í úrslitaleik gegn liði frá öðru landi - í 22 tilraunum.

Þá hefur enska landsliðið ekki tapað í þeim sex landsleikjum sem liðið hefur leikið í Berlín. Það gerðist 1930, 1938, 1956, 1972, 2008 og 2016.

Það er því ljóst að eitthvað verður undan að láta í kvöld.

Hér að neðan má lesa lengri upphitun fyrir leikinn þar sem farið er yfir sagnfræðilega vinkla og ítarefni.

14. júlí 2024 kl. 17:20

Olympiastadion er staðurinn

Leikurinn fer fram á hinum sögufræga Olympiastadion í Berlín fyrir framan 74.000 manns. Sagan drýpur af hverju strái á vellinum. Það var þarna sem Zidane skallaði Materazzi, Jesse Owens sýndi Adolf Hitler snilli sína og Usain Bolt setti met eftir met. Nú er komið að því að annað hvort Englendingar eða Spánverjar skrifi nöfn sín í sögubækurnar.

Talið er að yfir 50.000 Englendingar og tæplega 12.000 Spánverjar hafa lagt leið sína til Berlínar fyrir úrslitaleikinn.

Bukayo Saka fagnar vítaspyrnu sinni fyrir England gegn Sviss á EM karla í fótbolta 2024.
Bukayo Saka fagnar vítaspyrnu sinni gegn Sviss í átta liða úrslitum.EPA

Spánverjar hafa unnið EM þrisvar sinnum áður en Englendingar leita að sínum fyrsta Evrópumeistaratitli. Spánverjar unnu árin 1964, 2008 og 2012 en auk þess töpuðu þeir í úrslitaleik 1984. Ef þeir vinna í dag verða þeir fyrsta liðið til að lyfta bikarnum fjórum sinnum.

Englendingar hafa aldrei unnið EM en næst komust þeir er liðið tapaði úrslitaleiknum gegn Ítalíu 2021. Þá var leikið á Wembley í London og Englendingar töpuðu í úrslitaleik. Southgate er enn við stjórnvölinn og nokkrir af lykilmönnum Englands léku leikinn. Vinni Englendingar í kvöld er það fyrsti stórmótasigur þeirra í 58 ár, eða frá því að liðið vann HM á heimavelli 1966.