Rodri og Yamal valdir bestir
Rodrigo Hernández Cascante, Rodri, var valinn bestur allra á EM og ungstirnið Lamine Yamal besti ungi leikmaðurinn.
Rodri stýrði miðjuspili Spánverja á mótinu en fór meiddur af velli í hálfleik. Þessi 28 ára gamli miðjumaður steig varla feilspor á mótinu. Hann skoraði eitt mark.
Lamine Yamal sló hvert metið á fætur öðru á mótinu. Hann varð yngsti markaskorari í sögu mótsins auk þess sem hann var yngsti leikmaðurinn til að spila í úrslitaleik. Hann sló þar met Renatos Sanches frá EM 2016. Yamal er 17 ára og eins dags gamall, Sanches var 18 ára og 327 daga gamall.
Olmo, Kane, Mikautadze, Schranz, Gakpo og Musiala voru markahæstir á mótinu með þrjú mörk hver og hljóta því allir gullskóinn. UEFA tilkynnti að ekki yrði skorið úr um hver væri markahæstur miðað við fjölda mínútna eða stoðsendinga.