11. júlí 2024 kl. 17:44
Íþróttir
EM í fótbolta 2024

Frakki dæmir úr­slita­leik­inn á sunnu­dag

UEFA hefur valið dómara á úrslitaleik Englands og Spánar á EM í Þýskalandi, en leikurinn er á sunnudagskvöld. Sá útvaldi er Frakkinn François Letexier.

Hann er 35 ára gamall, hefur verið alþjóðadómari frá 2017 og hefur dæmt 65 leiki á vegum UEFA á ferli sínum. Hann hefur dæmt þrjá leiki á EM til þessa; leik Spánar og Georgíu í 16-liða úrslitum og svo leiki Danmerkur og Serbíu og Króatíu og Albaníu í riðlakeppninni. Þá var hann fjórði dómari á setningarleik Þýskalands og Skotlands.

Aðstoðardómarar verða þeir Cyril Mugnier og Mehdi Rahmouni frá Frakklandi og Pólverjinn Szymon Marciniak verður fjórði dómari. Í VAR-herberginu stýrir svo Tomasz Listkiewics frá Póllandi gangi mála og honum til aðstoðar verða Willy Delajod frá Frakklandi og Massimiliano Irrati frá Ítalíu.

Úrslitaleikur Englands og Spánar er klukkan 19 á sunnudagskvöld og sýndur beint á RÚV.

Francois Letexier, sýnir gula spjaldið í leik Króatíu og Albaníu á EM. Hann dæmir úrslitaleik Englands og Spánar.
EPA