9. júlí 2024 kl. 21:34
Íþróttir
EM í fótbolta 2024

Meiddi öryggisvörður Morata?

Í fagnaðarlátunum og æsingnum eftir sigur Spánverja í kvöld rann öryggisvörður á framherjann Alvaro Morata. Morata kveinkaði sér og hélt um hné sitt.

Alvaro Morata heldur um höfuð sitt í leik Spánar gegn Ítalíu á EM karla í fótbolta 2024.
Morata heldur um höfuð sitt í leik Spánar gegn Ítalíu á EM karla í fótbolta 2024.EPA

Spánverjar tryggðu sæti sitt í úrslitaleik EM með 2-1 sigri á Frökkum. Morata leiðir sóknarleik Spánverja og er fyrirliði liðsins.

Öryggisvörðurinn ætlaði sér að stöðva framgöngu boðflennu á grasinu en varð fyrir því óláni að renna og það beint á hné Morata. Morata hefur þó fjóra heila daga til að jafna sig fyrir úrslitaleikinn sem fer fram sunnudaginn 14. júlí.