6. júlí 2024 kl. 20:59
Íþróttir
EM í fótbolta 2024

Hol­land í und­an­úr­slit­in gegn Eng­landi

Hollendingar komust í kvöld í undanúrslit EM í fótbolta eftir 2-1 sigur á Tyrkjum í fjörugum háspennuleik. Hollendingar lentu undir en komust yfir með tveimur mörkum á sex mínútna kafla í seinni hálfleik. Þeir mæta Englendingum í undanúrslitum á miðvikudaginn.

Cody Gakpo (R) of the Netherlands celebrates after scoring the 2-1 goal during the UEFA EURO 2024 quarter-finals soccer match between Netherlands and Turkey, in Berlin, Germany, 06 July 2024.
EPA-EFE/CHRISTOPHER NEUNDORF

Hollendingar byrjuðu betur en Tyrkir náðu vopnum sínum eftir fyrstu 15 mínúturnar og á 35. mínútu komust Tyrkir yfir. Eftir hornspyrnu barst boltinn út fyrir vítateiginn á Real Madrid leikmanninn Arda Guler sem lyfti honum yfir hollensku vörnina að fjærstönginni þar sem þrír tyrkneskir leikmenn voru mættir. Samet Akaydin fékk frían skalla og kom Tyrkjum yfir, 1-0 sem var staðan í hálfleik.

Tyrkir léku án varnarmannsins Merih Demiral sem var dæmdur í leikbann fyrir að fagna með úlfatákni sem talið er vera vísun til öfgaþjóðernissinna í Tyrklandi. Demiral skoraði bæði mörk Tyrkja er þeir slógu út Austurríkismenn í sextán liða úrslitum. Akaydin tók út leikbann í þeim leik og tók stað Demiral í þessum leik.

Wout Weghorst kom inn á af varamannabekk Hollendinga í hálfleik og það blés lífi í sóknarleikinn. Hollendingar settu mikla pressu á Tyrki í seinni hálfleik og ákefðin í sóknarleiknum bar árangur á 70. mínútu þegar Stefan de Vrij skoraði glæsilegt skallamark af löngu færi eftir fyrirgjöf Memphis Depay.

Augnablikið var með Hollendingum þarna og sex mínútum síðar voru þeir búnir að ná viðsnúningi. Denzel Dumfries sendi boltann fyrir markið þar sem Cody Gakpo var mættur og kom Hollandi yfir 2-1. Markið var í fyrstu skráð á Gakpo en síðar var það reyndar skráð sem sjálfsmark Mert Müldür.

Tyrkir voru nokkrum sinnum nálægt því að jafna metin eftir þetta og voru í raun afar óheppnir að ná því ekki. Hollendingar fögnuðu 2-1 sigri og eru komnir í undanúrslit þar sem þeir mæta Englendingum.

Annað efni frá RÚV