„Vonandi missum við ekki Kyle út“
„Þetta var langt því frá að vera nægilega gott. Við vorum ekkert með hérna frá upphafi til enda og áttum ekkert skilið út úr þessum leik,“ sagði Rúnar Kristinsson þjálfari Fram eftir að lið hans féll úr leik í Mjólkurbikarnum í fótbolta í gærkvöld eftir 3-0 tap fyrir KA.
Rúnar ræðir einnig stöðuna á leikmannahóp sínum. Varnarmaðurinn Kyle McLagan nefbrotnaði líklega í leiknum og enn eru 2-3 vikur í að Kenni Chopart verði heill heilsu til að spila. „Vonandi missum við ekki Kyle út af núna vegna hugsanlegs nefbrots. Það væri slæmt.“
Viktor Bjarki Daðason hefur spilað talsvert fyrir Fram í sumar og verður 16 ára í lok mánaðar. Hvenær fer hann til FCK? „Hann á að fara um miðjan júlí. En við sjáum til hvort við getum eitthvað samið við þá um að hafa hann aðeins lengur,“ sagði Rúnar.