Valur, Breiðablik, Þór/KA og Þróttur í undanúrslit
Leah: Ég þurfti á því að halda
Leah Maryann Pais sem skoraði fernu fyrir Þrótt í kvöld segir að hún hafi þurft á því að halda fyrir sjálfstraustið.
„Mér líður ótrúlega. Þetta var góð liðsframmistaða. Þegar liðið styður mann svona allt um kring er auðvelt að setja boltann í netið. Þetta var gott fyrir sjálfstraustið og ég þurfti á því að halda.“
Þessi lið mætast í undanúrslitum
Rétt í þessu var dregið í undanúrslitin í Bikarkvöldi á RÚV 2.
Þór/KA - Breiðablik
Valur - Þróttur
Undanúrslitin verða leikin helgina 29. og 30. júní, klukkan 13 báða dagana, laugardag og sunnudag.
Öruggt hjá Þrótti sem tekur síðasta farseðilinn í undanúrslit
Fernan frá Leah Maryann Pais tryggði Þrótti 4-1 sigur á B-deildarliði Aftureldingar. Leah skoraði fyrsta markið úr vítaspyrnu á 20. mínútu en á ótrúlegum tíu mínútna kafla í seinni hálfleik bætti hún við þrennu áður en Katrín Vilhjálmsdóttir klóraði í bakann fyrir Aftureldingu.
Þar með er ljóst að Þróttur fylgir Breiðabliki, Val og Þór/KA í undanúrslit Mjólkurbikarkeppni kvenna árið 2024. Dregið verður í undanúrslitin í Bikarkvöldi sem er að hefjast núna á RÚV 2.
Leah komin með fernu fyrir Þrótt
Leah Maryann Pais skoraði þrjú mörk með skömmu millibili og er komin með fjögur mörk fyrir Þrótt sem komst í 4-0 gegn Aftureldingu. Heimakonur í Mosfellsbæ minnkuðu reyndar muninn í 4-1 skömmu síðar. Það er hálftími eftir af leiknum og Þróttarkonur eru komnar með annan fótinn í undanúrslitin.
Valur og Breiðablik örugglega áfram
Valur og Breiðablik áttu ekki í miklum vandræðum með að koma sér í undanúrslitin í kvöld. Valur burstaði B-deildarlið Grindavíkur 0-6 og Breiðablik fór létt með Keflavík, 5-2. Valur og Breiðablik fljúga því áfram í bikarnum og eru komin í undanúrslitin ásamt Þór/KA.
Þróttur fær víti og tekur forystuna
Það er komið mark í seinni sjónvarpsleikinn okkar í kvöld og það kom á 20. mínútu. Þróttur fékk vítaspyrnu sem Leah Maryann Pais skoraði úr sjálf eftir að brotið hafði verið á henni. Staðan er því orðin Afturelding 0 - Þróttur 1.
Valur og Breiðablik yfir í hálfleik
Valur og Breiðablik eru með nokkuð þægilega stöðu í hálfleik gegn mótherjum sínum, Grindavík og Keflavík. Ísabella Sara Tryggvadóttir og Nadía Atladóttir skoruðu mörk Vals sem er 0-2 yfir gegn Grindavík en leikið er á Stakkavíkurvelli í Safamýri.
Katrín Ásbjörnsdóttir, Anna Nurmi og Barbára Sól Gísladóttir skoruðu mörk Breiðabliks sem er 3-0 yfir í hálfleik gegn Keflavík. Leikur Aftureldingar og Þróttar hófst nú klukkan 20 í beinni útsendingu á RÚV 2.
Sandra María: Skynsamlegt að minnka álagið
Sandra María Jessen hafði aðeins verið inni á vellinum í tvær mínútur þegar hún skoraði sigurmark Þórs/KA gegn FH. Sandra byrjaði á bekknum en kom inn í hálfleik og hafði Jóhann Kristinn Gunnarsson þjálfari Þórs/KA sagst vilja hvíla hana vegna mikils álags að undanförnu en Sandra er nýkomin úr verkefni með landsliðinu.
„Þetta var rosalega gaman og gott fyrir mig að koma inn á með ferskar lappir þegar þær eru búnar að hlaupa í heilan hálfleik. Það var skynsamlegt af Jóa þjálfara að minnka álagið á manni eftir allt sem er búið að vera í gangi undanfarið.“
Sandra tekur undir með Jóhanni þjálfara að vilja fá heimaleik í undanúrslitunum. „Við erum búnar að vera mikið í útileikjum, bæði í deildinni og og báðum leikjunum í bikarnum. Þannig að það væri rosalega gaman að fá heimaleik.“
Blikar taka forystuna snemma
Það tók Breiðablik innan við tvær mínútur að ná forystunni gegn Keflavík í leik liðanna sem hófst klukkan 19:15. Katrín Ásbjörnsdóttir skoraði markið og Anna Nurmi bætti svo öðru marki við fyrir Blika á 10. mínútu og staðan er því orðin 2-0 á Kópavogsvelli. Við setjum mörkin úr þessum leik og leik Grindavíkur og Vals hér inn í bikarvaktina að leikjunum loknum.
8-liða úrslitin verða svo gerð upp í Bikarkvöldi á RÚV 2 klukkan 21:55 að loknum leik Aftureldingar og Þróttar sem hefst klukkan 20 í beinni hjá okkur.
Þór/KA hafði betur og er fyrst liða í undanúrslit
Það er búið að flauta til leiksloka í Kaplakrika og Þór/KA fer með sigur af hólmi gegn FH, 0-1. Markið sem Sandra María Jessen skoraði í upphafi seinni hálfleiks reyndist sigurmarkið en hún hafði aðeins verið inni á vellinum í tvær mínútur. Þór/KA er því fyrst liða komið í undanúrslit Mjólkurbikarkeppni kvenna 2024.
Það skýrist svo síðast í kvöld hvaða þrjú lið fylgja norðankonum í undanúrslitin. Tveir leikir hefjast nú klukkan 19:15 og svo sýnum við beint frá leik Aftureldingar og Þróttar klukkan 20.
- 19:15 Breiðablik - Keflavík
- 19:15 Grindavík - Valur
- 20:00 Afturelding - Þróttur (RÚV2) og Bikarkvöld
Markvörður Þórs/KA varði víti
FH fékk gullið tækifæri til að jafna metin á 59. mínútu þegar vítaspyrna var dæmd. En Shelby Money markvörður Þórs/KA varði vítaspyrnuna frá Andreu Rán Snæfeld Hauksdóttur og Þór/KA er ennþá yfir 0-1.
Sandra María kom Þór/KA yfir
Talandi um Söndru Maríu hér áðan. Hún kom inn á af varamannabekknum í hálfleik og þurfti ekki nema tvær mínútur að skora. Þór/KA er komið yfir í Kaplakrika, 0-1 í upphafi seinni hálfleiks.
Markalaust í hálfleik
Eftir tiltölulega tíðindalítinn fyrri hálfleik er markalaust í hálfleik hjá FH og Þór/KA í Kaplakrika. En eitthvað verður undan að láta og við fáum vonandi meira fjör í seinni hálfleikinn enda er leikið til þrautar. Það er farseðill í undanúrslitin í boði.
Sandra María hvíld vegna álags
Það vekur athygli að landsliðskonan Sandra María Jessen er á varamannabekknum hjá Þór/KA gegn FH. Jóhann Kristinn Gunnarsson þjálfari liðsins segir það eiga sér einfalda skýringu.
„Það er bara búið að vera mikið álag á henni undanfarið. Hún tók þátt í landsliðsverkefni á meðan flestir leikmenn á landinu voru í fríi. Hún spilaði mikið þar og svo spiluðum við erfiðan leik á laugardaginn síðasta. Við verðum að fara gætilega með hana eins og aðra leikmenn þannig að hún byrjar ekki en er til taks.“
Rólegur fyrri hálfleikur í Krikanum
Það er enn markalaust í Kaplakrika þegar fyrri hálfleikur er rúmlega hálfnaður. Þarna eigast við liðin í fjórða og þriðja sæti Bestu deildar kvenna. Þór/KA er í þriðja sæti með 15 stig eftir sjö umferðir, fimm stigum á undan FH.
Klukkan 20 í kvöld sýnum við leik Aftureldingar og Þróttar á RÚV 2. Það var einmitt Afturelding sem sló út ríkjandi bikarmeistara Víkings í 16-liða úrslitunum, 1-0 í Mosfellsbæ.
Netaviðgerð fyrir leik í Kaplakrika
Fyrsti leikur farinn í gang
8-liða úrslit Mjólkurbikars kvenna í fótbolta verða spiluð í dag og kvöld. Sex lið úr efstu deild eru enn í hópnum og tvö úr þeirri næstefstu, topplið Aftureldingar og Grindavík. Tveir leikir verða sýndir beint og svo fylgir Bikarkvöld í kjölfarið.
Dagskráin í dag er svona:
- 17:15 FH - Þór/KA (RÚV2)
- 19:15 Breiðablik - Keflavík
- 19:15 Grindavík - Valur
- 20:00 Afturelding - Þróttur (RÚV2) og Bikarkvöld