Athugið að þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul

Samantekt

Sjáðu mörkin: Aukaspyrnumark og umdeildur vítaspyrnudómur

Almarr Ormarsson

,

Þessum viðburði er lokið og því hefur streymið verið fjarlægt.

19. maí 2024 kl. 22:06

Dregið á þriðjudag

Segjum þetta gott úr vaktinni í dag en minnum að sjálfsögðu á Bikarkvöld sem er á dagskrá RÚV 2.

Öll úrslit 16-liða úrslitanna:

Tindastóll 1-2 Þór/KA
Grótta 1-3 Keflavík
Grindavík 2-2 ÍA (Grindavík áfram eftir vítaspyrnukeppni)
Valur 8-0 Fram
Afturelding 1-0 Víkingur
FH 3-2 FHL
Þróttur 5-0 Fylkir
Stjarnan 3-4 Breiðablik

Dregið verður í 8-liða úrslitin bæði karla og kvenna á þriðjudaginn. Leikirnir fara svo fram 11. og 12. júní.

19. maí 2024 kl. 22:03

Þetta er búið! Breiðablik vinnur

Stjarnan nær ekki að búa sér til alvöru færi á þessum lokamínútum og Breiðablik vinnur 3-4 í bráðskemmtilegum leik.

19. maí 2024 kl. 21:58

Agla María rekin af velli!

Agla María Albertsdóttir fær sitt annað gula spjald þegar fimm mínútur eru eftir af framlengingunni. Er þetta líflína fyrir Stjörnuna?

19. maí 2024 kl. 21:38 – uppfært

Breiðablik fær víti

Vigdís Lilja Kristjánsdóttir fer niður í teignum í baráttu við Caitlin Cosme og Bríet Bragadóttir dómari bendir á punktinn.

Alveg spurning hvort Vigdís hafi ekki bara runnið en víti dæmt og því verður ekki breytt.

Agla María skorar svo úr vítinu með fastri spyrnu. 3-4!

19. maí 2024 kl. 21:23

Framlenging, takk!

Bráðfjörugur leikur og við fáum 30 mínútur af honum í viðbót. Nær annað liðið að klára þetta í framlengingunni eða fáum við aðra vítaspyrnukeppni 16-liða úrslitanna?

19. maí 2024 kl. 21:16 – uppfært

Stjarnan jafnar rétt fyrir leikslok!

Esther Rós Arnarsdóttir gerir mjög vel að búa sér til pláss í teignum og hún klárar færið mjög vel. 3-3 þegar um tvær mínútur eru eftir af venjulegum leiktíma.

Framlenging? Allavega líklegt

19. maí 2024 kl. 20:45 – uppfært

Bæði lið búin að skora í seinni hálfleik

Stutt á milli marka!

Agla María Albertsdóttir kom Blikum í 1-3 á 55. mínútu og Andrea Mist Pálsdóttir svarar um hæl með frábæru marki beint úr aukaspyrnu.

2-3!

19. maí 2024 kl. 20:27

Eitt mark skilur liðin að í hálfleik

Það er kominn hálfleikur í Garðabænum og Breiðablik er enn með forystuna, 1-2. Það er nóg eftir hins vegar og gaman verður að sjá hvaða lið verður það síðasta til að komast í 8-liða úrslitin.

19. maí 2024 kl. 19:58 – uppfært

Stjarnan minnkar muninn

Garðbæingar bíta frá sér, Caitlin Meghani Cosme skallar fyrirgjöf Hönnuh Sharts í netið og staðan er því orðin 1-2 í Garðabænum.

19. maí 2024 kl. 19:54 – uppfært

Ásta Eir bætir við öðru marki Blika

Fyrirliðinn Ásta Eir Árnadóttir skorar annað mark Breiðabliks. Stjörnunni tekst ekki að koma boltanum í burtu eftir hornspyrnu og Ásta Eir vippar boltanum laglega í færhornið og Blikar leiða 0-2.

19. maí 2024 kl. 19:33 – uppfært

Mark á fyrstu mínútu!

Leikurinn var varla farinn af stað þegar Birta Georgsdóttir var búin að skora fyrir Breiðablik. 0-1 í Garðabænum, alls ekki það sem Stjarnan hafði óskað sér.

19. maí 2024 kl. 19:10

Komnar til baka eftir höfuðhögg

Byrjunarliðin fyrir stórleik Stjörnunnar og Breiðabliks eru klár. Það er gaman að sjá Önnu Maríu Baldursdóttur, fyrirliða Stjörnunnar, í byrjunarliðinu en hún fékk höfuðhögg fyrir um tveim vikum og hefur verið að jafna sig af þeim.

Ekki er síður skemmtilegt að sjá Áslaugu Mundu Gunnlaugsdóttur í byrjunarliði Breiðabliks en hún hefur mikið gleymt við höfuðmeiðsli undanfarin ár og ekki var víst að hún myndi spila í sumar. Hún hefur þó tekið þátt í fjórum Bestu deildar leikjum í sumar en þetta er hennar fyrsti byrjunarliðsleikur.

Byrjunarlið Stjörnunnar og Breiðabliks í 16-liða úrslitum Mjólkurbikars kvenna 2024
KSÍ

Leikurinn hefst 19:30 og bein útsending á RÚV 2 eða í spilaranum hér fyrir ofan klukkan 19:20.

19. maí 2024 kl. 17:56

5-0 lokatölur

Sigríður Theódóra Guðmundsdóttir skoraði fimmta mark Þróttar rétt áður en flautað var til leiksloka og Þróttur vinnur því 5-0. Liðið er því komið í 8-liða úrslitin.

Við tökum okkur smá hvíld hér í vaktinni en mætum þegar styttist í lokaleik umferðarinnar, Stjarnan tekur á móti Breiðablik klukkan 19:30, útsending á RÚV 2 hefst kl. 19:20.

Strax í kjölfarið er svo Bikarkvöld á dagskrá þar sem farið verður yfir alla leikina í 16-liða úrslitunum.

19. maí 2024 kl. 17:32 – uppfært

Þróttarar skora fjórða markið

Það hefur lítið gengið hjá Þrótturum í sumar en nú rigna mörkin inn. Freyja Karín Þorvarðardóttir skorar fjórða mark þeirra, 4-0, og stefnir allt í að þær fari áfram í bikarnum.

19. maí 2024 kl. 16:49 – uppfært

Þróttarar skora úr síðustu spyrnu fyrri hálfleiks

Þróttur leiðir 3-0 í hálfleik. Nú var þetta öfugt við fyrsta markið, Sierra Marie Lelii rennir boltanum út á Kristrúnu Rut Antonsdóttur sem klárar færið vel.

Hvað gera Árbæingar í seinni hálfleiknum? Þurfa þrjú mörk til að halda bikardraumnum á lífi.

19. maí 2024 kl. 16:35 – uppfært

Þróttarar tvöfalda forystu sína

María Eva Eyjólfsdóttir skorar annað mark Þróttara og kemur þeim í 2-0 á 33. mínútu. Er fyrsti sigur Þróttar í sumar í vændum?

19. maí 2024 kl. 16:30

FH vinnur

Leik lokið í Hafnarfirðinum þar sem FH vinnur 3-2 sigur gegn FHL. Sveiflukenndur leikur þar sem liðin skiptust á að leiða en að lokum var það Bestudeildarliðið sem tryggir sér farseðilinn í 8-liða úrslitin.

19. maí 2024 kl. 16:17 – uppfært

Þróttur skorar fyrsta markið í Laugardalnum

Sierra Marie Lelii með laglegan flugskalla eftir flotta fyrirgjöf Kristrúnar Rutar Antonsdóttur. 1-0 fyrir Þrótt gegn Fylki.

19. maí 2024 kl. 16:10 – uppfært

Þrjú mörk til viðbótar komin í leik FH og FHL

Staðan í Hafnarfirði er 3-2, FH í vil. Samantha Smith kom FHL yfir í 1-2 en FH er svo búið að skora tvívegis. Ída Marín Hermannsdóttir jafnaði metin og svo skoraði Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir þriðja mark Hafnfirðinga.

19. maí 2024 kl. 15:56

Bikarmeistararnir úr leik - Afturelding áfram

Fyrsta liðið til að verða bikarmeistari sem Lengjudeildarlið fellur svo úr keppni gegn Lengjudeildarliði. Afturelding vinnur 1-0 og fer áfram en bikarmeistarar Víkings úr leik.

19. maí 2024 kl. 15:49

Leik lokið hjá Val og Fram

Búið að flauta til leiksloka á Hlíðarenda. Valur vinnur 8-0 og flýgur inn í 8-liða úrslitin.

19. maí 2024 kl. 15:40

Og svo urðu mörkin 8

Amanda Andradóttir klárar þrennuna með 8. marki Vals á 78. mínútu. Íslandsmeistararnir slaka ekkert á gegn Fram.

19. maí 2024 kl. 15:31

Amanda bætir tveimur við fyrir Val

Lítill vafi lengur á því hvorum megin sigurinn endar á Hlíðarenda. Amanda Andradóttir búin að skora tvö mörk í seinni hálfleik (47. og 69. mínúta) og staðan orðin 7-0.

19. maí 2024 kl. 15:29

FHL jafnar gegn FH

Emma Hawkins skoraði þetta laglega mark á 36. mínútu fyrir FHL gegn FH. 1-1 í hálfleik þar.

19. maí 2024 kl. 15:06

1. mark FH

Snædís María Jörundsdóttir skorar fyrsta mark FH á 13. mínútu gegn FHL í Kaplakrika.

19. maí 2024 kl. 15:05

5. mark Vals

Ísabella Sara Tryggvadóttir kom Val í 5-0 í lok fyrri hálfleiks. Erfið staða hjá Fram.

19. maí 2024 kl. 14:48

FH tekur forystuna

Snædís María Jörundsdóttir kemur FH-ingum yfir gegn FHL. 1-0 í Kaplakrika.

Það er kominn hálfleikur í hinum tveimur leikjunum þar sem Valskonur eru 5-0 yfir gegn Fram og Afturelding leiðir 1-0 gegn Víkingum.

19. maí 2024 kl. 14:44

Ísabella vill vera með

Ísabella Sara Tryggvadóttir skorar fimmta mark Valskvenna stuttu fyrir hálfleik. Nú er þetta aðalega spurning um hversu stór sigurinn verður.

19. maí 2024 kl. 14:37 – uppfært

Valur bætir við tveimur

Valur er komið í 4-0. Fyrst skoraði Guðrún Elísabet sitt annað mark og svo bætti Fanndís Friðriksdóttir við fjórða markinu.

Þá er leikur FH-FHL farinn af stað en hann hófst 14:30.

19. maí 2024 kl. 14:27

Valskonur tvöfalda forystuna

Valur er komið í 2-0 eftir mark Guðrúnar Elísabetar Björgvinsdóttur.

Gæti orðið erfiður dagur fyrir Framara ef Íslandsmeistararnir eru í stuði.

19. maí 2024 kl. 14:16 – uppfært

Íslandsmeistararnir leiða

Katie Cousins kemur Val yfir gegn Fram. Hún fékk fyrirgjöf og smellir boltanum í þverslána en nær sjálf frákastinu og afgreiðir þá boltann í netið. 1-0 á Hlíðarenda.

19. maí 2024 kl. 14:14 – uppfært

Afturelding er komið yfir gegn bikarmeisturunum!

Tíðindi úr Mosó! Afturelding skorar fyrsta mark leiksins en það gerði fyrirliðinn Hildur Karítas Gunnarsdóttir á áttundu mínútu.

19. maí 2024 kl. 14:08

Fyrstu leikir dagsins farnir af stað

Tveir leikir hófust núna klukkan 14:00 og í báðum mæta Bestudeildar lið liði úr næstefstu deild: Valur tekur á móti Fram og í Mosfellsbæ eigast Afturelding og Víkingur við.

Enn er markalaust í báðum leikjum þegar rétt rúmlega fimm mínútur eru liðnar.

19. maí 2024 kl. 13:53

Hversu langt fara bikarmeistararnir?

Eins og frægt er orðið varð Víkingur bikarmeistari í fyrra þrátt fyrir að spila í næstefstu deild. Þetta var í fyrsta skipti sem lið sem ekki leikur í efstu deild verður bikarmeistari.

Víkingar eru þó í efstu deild í ár þar sem liðið vann Lengjudeildina og liðið er sem stendur í fjórða sæti með sjö stig eftir fimm umferðir.

Í 16-liða úrslitunum mæta Víkingar Lengjudeildarliði Aftureldingar í Mosfellsbæ og verður fróðlegt að sjá hvort bikarmeistararnir fara áfram eða hvort við fáum jafnvel annað bikarævintýri neðrideildarliðs.

19. maí 2024 kl. 13:45

16-liða úrslitin klárast í dag

Þrír leikir fóru fram í gær og fóru þeir svona:

  • Tindastóll 1-2 Þór/KA
  • Grótta 1-3 Keflavík
  • Grindavík 2-2 ÍA (Grindavík áfram eftir vítaspyrnukeppni)

Í dag eru svo fimm leikir og sýnum við tvo þeirra í beinni útsendingu:

  • 14:00 Valur - Fram
  • 14:00 Afturelding - Víkingur
  • 14:30 FH - FHL
  • 16:00 Þróttur - Fylkir (RÚV)
  • 19:30 Stjarnan - Breiðablik (RÚV 2)

Bikarkvöld er svo á dagskrá á RÚV 2 um leið og leikur Stjörnunnar og Breiðabliks klárast og þar fara Einar Örn, Margrét Lára og Gunnar Birgis yfir alla leiki umferðarinnar.