Emil Barja hefur verið ráðinn þjálfari kvennaliðs Hauka í körfubolta. Hann gerði tveggja ára samning. Hann leysir Ingvar Guðjónsson af hólmi en Ingvar stýrði Haukaliðinu á síðari hluta núverandi leiktíðar eftir að Bjarni Magnússon lét af störfum. Emil kom inn í þjálfarateymi liðsins samhliða Ingvari og tekur nú við.
Emil er uppalinn Haukamaður og lék allan sinn feril með Haukum, utan tímabilsins 2018-2019 þegar hann lék með KR. Frá 2012 var hann fyrirliði liðsins og er leikjahæsti leikmaður karlaliðs Hauka.
Kvennalið Hauka varð í fjórða sæti A-deildar Subwaydeildarinnar í vetur en féll svo út í 8-liða úrslitum eftir fimm leikja seríu gegn Stjörnunni.