8. apríl 2024 kl. 21:26
Íþróttir
Körfubolti

Grindavík og Njarðvík byrja úrslitakeppnina á sigri

Úrslitakeppnin í Subway-deild kvenna í körfubolta hófst í kvöld með tveimur leikjum.

Grindvíkingar höfðu betur gegn Þór í spennandi leik, 94-87. Gestirnir frá Akureyri leiddu með fjórum stigum eftir fyrsta leikhluta en heimakonur svöruðu vel og staðan í hálfleik var 47-44, Grindavík í vil.

Munurinn var orðinn 11 stig fyrir síðasta leikhlutann. Þórsarar gerðu atlögu að því að jafna en komust ekki nær en 5 stigum. Grindavík vann því fyrsta leik viðureignarinnar en vinna þarf þrjá leiki til að komast í undanúrslit.

Spennan var öllu minni í leik Njarðvíkur og Vals þar sem Njarðvík vann stórsigur, 96-58.

Úrslitakeppnin heldur áfram á morgun þegar Keflavík tekur á móti Fjölni annars vegar og Haukar og Stjarnan eigast við hins vegar.