Forsetabikarinn er á leið á Bessastaði
Umfjöllun: Forsetabikarinn er okkar
Íslenska landsliðið lyfti Forsetabikarnum eftir 30-28 sigur gegn Kongó.
Stelpurnar okkar settu tóninn strax í upphafi leiks er Thea Imani reis upp og skoraði fyrsta mark leiksins. Markvörður Kóngókvenna reyndist okkur erfiður í upphafi og Kongó komst í 1-3 forystu. Í næstu sóknum flæddi sóknarleikurinn vel í kringum Theu. Hafdís lét svo vita af sér í markinu og varði í gríð og erg. Hún var með 45% markvörslu undir lok hálfleiksins. Þórey Rósa skoraði næst þrjú mörk í röð og Ísland leiddi 8-4 eftir þrettán mínútna leik. Staðan var síðar orðin 13-9 Íslandi í vil eftir 25 mínútna leik. Þá stigu Kongókonur á bensíngjöfina og minnkuðu muninn hægt og rólega. Þær jöfnuðu undir lok hálfleiksins og liðin gengu til búningsklefa í stöðunni 14-14.
Sveiflukenndur seinni hálfleikur
Kóngó skoraði fyrsta mark seinni hálfleiks og staðan var 15-14 þeim í vil. En skömmu síðar hrökk sóknarleikur okkar aftur í gang. Elín Rósa skoraði tvö mörk með skömmu millibili og Þórey Rósa kom liðinu í 18-16 eftir 34 mínútna leik. Elín Jóna kom þá af bekknum og varði víti. Hún hefur sýnt og sannað það á þessu móti að hún er sannkallaður vítabani.
Næstu mínútur var leikurinn í járnum en Kongó komst yfir í stöðunni 20-21.
Íslenska liðið týndi taktinum örlítið á þessum leikkafla. Thea reyndist bjargvætturinn í sóknarleiknum í þrígang og Ísland komst yfir eftir 46 mínútna leik, 24-23. Staðan var áfram hnífjöfn næstu mínútur en í stöðunni 27-27 fékk Lilja Ágústsdóttir víti og tvær mínútur á varnarmann Kongó.
Þórey Anna og Sandra kláruðu síðan leikinn þegar þær voru ískaldar og kláruðu færi sín vel. Lokatölur 30-28 og íslenska liðið lyfti Forsetabikarnum.
Thea Imani Sturludóttir var markahæst með sex mörk en þar á eftir fylgdi Þórey Rósa með fimm mörk. Kassandra Jappont skoraði sjö mörk í liði Kongó.
Titill í hús - sjáumst á næsta stórmóti
Liðið var hársbreidd frá því að fara í milliriðil. En úr því sem komið var þurftu þær að sýna að þær væru betri en svo að leika um Forsetabikarinn. Þær unnu alla þrjá leiki sína í Forsetabikarsriðlinum með markatöluna +36. Svo varð Forsetabikarinn þeirra að lokum. Þetta er skringilegur bikar að mörgu leiti, þar sem lokaniðurstaðan var 25. sæti. En þetta er bikar engu að síður.
Reynslan á mótinu mun reynast liðinu afar dýrmæt upp á framhaldið. Meðalaldur liðsins er 25 ár og ljóst að stefnan verður sett á stórmót á næstu árum. Það er ekki annað hægt en að fyllast bjartsýni eftir leik okkar á mótinu í ár. Næsta kynslóð er klár í að taka endanlega við keflinu.
Æsispennandi lokamínútur
Staðan er 29-28 Ísland í vil þegar mínúta er eftir.
Jafnt þegar ellefu mínútur lifa leiks
Staðan er 24-24 þegar ellefur mínútur eru eftir. Thea hefur stigið upp í sóknarleiknum síðustu mínútur.
Allt í járnum
Staðan er 22-23 Kongó í vil eftir 44 mínútna leik.
Seinni hálfleikur hafinn
Kongó skoraði fyrsta mark hálfleiksins en Ísland endurheimti forskot sitt með marki Elínar Rósu sem breytti stöðunni í 16-15 eftir 33 mínútna leik.
Jafnt í hálfleik
Kongó kláraði fyrri hálfleik af miklum krafti. Staðan er 14-14 í hálfleik en Ísland var 13-9 yfir þegar 25 mínútur voru liðnar.
Kongó minnkar muninn
Kongókonur hafa hægt og rólega minnkað muninn síðustu mínútur. Ísland leiðir nú með einu marki undir lok fyrri hálfleiks.
Ísland leiðir með þremur
Ísland er að spila vel og fá mörk úr öllum áttum.
Staðan er nú 13-10 okkur í vil þegar fimm mínútur eru eftir af hálfleiknum.
Ísland leiðir með fjórum
Eftir smá bras í byrjun er íslenska vélin byrjuð að malla á báðum endum vallarins. Staðan er nú 9-5 Íslandi í vil eftir sautján mínútna leik.
Ísland komið yfir
Hafdís er komin í gang í markinu og Hafdís er að verja vel. Við leiðum 5-3 eftir tíu mínútna leik.
Hún hættir ekki að verja
Staðan er 1-3 Kongó í vil en markvörður þeirra hefur reynst okkur erfið. Hún er strax komin með þrjú skot varin.
Thea með fyrsta markið
Stelpurnar eru ekkert að tvínóna við hlutina! Fyrsta skot Kongó geigar og Ísland geysist fram í sókn. Þar reis Thea Imani og gerði fyrsta markið.
Þeirra hættulegasti sóknarmaður Diagouraga jafnar hins vegar metin af vítalínunni. Staðan er 1-1 eftir þriggja mínútna leik.
Styttist í veisluna
Útsending frá leiknum hefst innan skamms. Okkar konur hafa lokið upphitun og eru klárar í slaginn.
Gunnar Birgisson lýsir leiknum sem er í beinni á RÚV2. Hægt er að horfa á hann hér að ofan í beinu streymi auk auðvitað sjónvarps.
Við minnum svo á að leikur Danmerkur og Svartfjallalands í átta liða úrslitum er í beinni útsendingu á vef RÚV. Hann má finna hér: Í beinni: Danmörk mætir Svartfjallalandi.
Sanda markahæst á mótinu
Sandra Erlingsdóttir er markahæst í íslenska liðinu á mótinu hingað til. Hún hefur skorað 30 mörk en af þeim eru þrettán úr vítaköstum. Næstar fylgja þær Perla Ruth og Thea Imani með 21 mark hvor.
Í liði Lýðveldisins Kongó er Fanta Diagouraga langmarkahæst með 33 mörk. Íslenska vörnin þarf að hafa góðar gætur á henni í dag.
Mörk Íslands:
Sandra Erlingsdóttir - 30
Perla Ruth Albertsdóttir - 21
Thea Imani Sturludóttir - 21
Þórey Anna Ásgeirsdóttir - 16
Elín Rósa Magnúsdóttir - 16
Þórey Rósa Stefándóttir - 14
Díana Dögg Magnúsdóttir - 14
Hildigunnur Einarsdóttir - 8
Elísa Elíasdóttir - 7
Lilja Ágústsdóttir - 6
Andrea Jacobsen - 4
Katla María Magnúsdóttir - 2
Sunna Jónsdóttir - 2
Katrín Tinna Jensdóttir - 1
Elín Jóna Þorsteinsdóttir - 1
Hafdís Renötudóttir - 1
Þriðji titill íslensks handboltalandsliðs?
Í kvöld gæti íslenskt handboltalandslið í fullorðinsflokki lyft sínum þriðja titli í sögunni.
Árið 1964 vann kvennalandsliðið Norðurlandamótið utanhúss sem haldið var á Íslandi. Leikið var á grasi og Sigríður Sigurðardóttir fór fyrir íslenska liðinu. Hún varð íþróttamaður ársins það ár, fyrst kvenna.
Hinn titilinn er B keppnin 1989 hjá karlalandsliðinu. Örfá lið komust beint í aðalkeppni HM það árið. Öll hin liðin fóru því í B keppnina og efstu liðin í henni fóru inn á næsta heimsmeistaramót.
Karlaliðið varð svo auðvitað í öðru sæti á Ól 2012 og í þriðja sæti á Austurríki 2010. En þar var enginn titill í boði.
Í kvöld er það svo. 59 árum síðar getur íslenska liðið unnið sinn annan titil.
Arnar langar í titil
Arnar Pétursson landsliðsþjálfari ætlar sér að lyfta Forsetabikarnum. „Það má segja ýmislegt um þessa keppni og annað. En við fáum sem betur fer fleiri leiki og við fáum að spila um bikar. Það skiptir okkur miklu máli,“segir Arnar.
Svíar komnir í undanúrslit
Þó að Ísland sé að keppa úrslitaleik er HM enn í fullu fjöri.
Fyrr í dag unnu Svíar lið Þjóðverja með sjö mörkum og tryggðu sig í undanúrslit. Þjóðverjar gerðu sér erfitt fyrir með slakri byrjun.
Á sama tíma og leikur Íslands stendur yfir fer fram síðasti leikurinn í átta liða úrslitum. Þar mætast Danir og Svartfellingar. Leikurinn er í beinni á RÚV vefnum og má nálgast hann á vef íþróttadeildarinnar í sérstakri færslu.
Lýðveldið Kongó mótherjar dagsins
Til að taka af allan vafa þá mætir Ísland Lýðveldinu Kongó (e. Republic of Congo) í kvöld en ekki Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó (e. DRC Congo).
Stundum er talað um Vestur-Kongó og og Austur-Kongó en Lýðveldið er vestar.
Lýðveldið Kongó er öllu fámennara og smærra í stærð en Lýðsstjórnarlýðveldið. Engu að síður búa þar um 5.4 milljón manns.
Lýðveldið Kongó hefur lengi tekið þátt í Afríkukeppni kvenna í handbolta eða allt frá 1976. Liðið vann mótið fjórar keppnir í röð frá 1979 til 1985 en hefur best náð bronsi síðan þá. Það er það næst sigursælasta í sögu keppninnar, á eftir Angóla.
Andrea aftur inn í hópinn
Hópur kvöldsins er klár. Skyttan Andrea Jacobsen kemur aftur inn í liðið en Katla María Magnúsdóttir hefur snúið heim til Íslands. Katrín Tinna Jensdóttir er einnig utan hóps.
Markverðir:
Elín Jóna Þorsteinsdóttir, EH Aalborg (54/2).
Hafdís Renötudóttir, Val (55/3).
Aðrir leikmenn:
Andrea Jacobsen, Silkeborg-Voel (49/73).
Berglind Þorsteinsdóttir, Fram (21/5).
Díana Dögg Magnúsdóttir, BSV Sachsen Zwickau (49/68).
Elín Rósa Magnúsdóttir, Val (14/29).
Elísa Elíasdóttir, ÍBV (11/10).
Hildigunnur Einarsdóttir, Val (103/120).
Jóhanna Margrét Sigurðardóttir, Skara HF (11/8).
Lilja Ágústsdóttir, Val (19/12).
Perla Ruth Albertsdóttir, Selfossi (43/78).
Sandra Erlingsdóttir, Tus Metzingen (31/141).
Sunna Jónsdóttir, ÍBV (85/62).
Thea Imani Sturludóttir, Val (73/152).
Þórey Anna Ásgeirsdóttir, Val (42/45).
Þórey Rósa Stefánsdóttir, Fram (132/379).
Hvernig virkar Forsetabikarinn?
Bikarinn er hugarfóstur forseta alþjóðahandknattleikssambandsins og kom fyrst til sögunnar á HM karla 2011. Egyptinn Hassan Moustafa hefur setið sem fastast í forsetastólnum frá árinu 2000. Moustafa er 79 ára gamall.
Forsetabikarinn er hugsaður til að hafa verkefni fyrir þau lið sem detta út eftir riðlakeppnina. Liðin fá því leikreynslu og geta keppt að einhverju.
Þrátt fyrir að Kongo og Ísland leiki um 25. sæti mótsins er bikar í boði. Sigurvegari leik dagsins mun lyfta bikarnum við verðlaunaathöfn að leiknum loknum.
Meira má lesa um mótið hér að neðan:
Angóla er ríkjandi handhafi Forsetabikarsins en liðið vann Slóvakíu í úrslitaleiknum á HM 2021.
Bikarinn var með öðru fyrirkomulagi á HM 2019 en þá urðu Frakkar í 13. sæti og tæknilega séð Forsetabikarsmeistarar. Það er að segja, þeir voru efstir þeirra liða sem fóru ekki í milliriðil. Þá fóru fjögur lið áfram í undanúrslit eftir milliriðla.
Aðrir sigurvegarar: Pólland 2017. Kína 2015. Túnis 2013.
Komið að úrslitaleiknum
Eftir að ljóst var að íslenska liðið færi ekki áfram í milliriðla var Forsetabikarinn næsta áskorun. Þrátt fyrir að keppnin sé sérstök að mörgu leyti var ekkert annað í boði en gera allt til að lyfta bikarnum.
Ísland vann sinn riðil en Paragvæ, Kína og Grænland lágu í valnum. Kongókonur unnu leiki sína gegn Íran, Síle og Kasakstan. Ísland vann sína leiki örugglega en Kóngó vann Kasaka með einu marki og Síle með tveimur. Kongó er með +16 í sínum riðli en Ísland með +36.
Hversu góðar eru Kongókonur?
Það er erfitt að rýna í leik Kóngó en liðið tapaði stórt gegn Hollandi og Tékklandi, en með fimm mörkum gegn Argentínu.
Kongó varð í þriðja sæti á síðustu Afríkukeppni sem Angóla vann. Angóla gerði jafntefli gegn Íslandi í lokaleik riðilsins sem var jafnframt úrslitaleikur um sæti í milliriðli.
Núna er ekkert eftir fyrir stelpurnar okkar en að sýna að þær séu bestar í hópi þeirra sem komust ekki í milliriðla. Verður Forsetabikarinn okkar?