Gríðarlegt jafnræði í milliriðli 4 á HM
Keppni lauk í dag í milliriðli 4 á HM kvenna í handbolta. Úrslit dagsins urðu á þá leið að Argentína lagði Úkraínu 25-20, Brasilía vann Tékkland 30-27 og Holland sigraði Spán 29-21.
Riðillinn var ótrúlega jafn og eftir alla leiki voru þrjú lið jöfn með 6 stig í 2.-4. sæti á eftir Hollandi. Í handbolta ráða úrslit úr innbyrðisviðureignum þegar lið enda jöfn og þá flæktist málið enn. Tékkland, Brasilía og Spánn voru öll með 6 stig og höfðu skipst á að vinna hvert annað; Spánn vann Brasilíu sem vann Tékkland sem hafði aftur á móti unnið Spán. Þá varð að grípa til innbyrðismarkatölunnar í leikjum liðanna og þar loks fékkst niðurstaða. Tékkland var þar með besta stöðu og hafnar því í 2. sæti riðilsins og kemst áfram í 8-liða úrslit ásamt Hollandi.