9. desember 2023 kl. 21:17
Íþróttir
HM í handbolta 2023

Sví­þjóð, Dan­mörk og Þýska­land örugg áfram

Tíu leikir voru á dagskrá HM kvenna í handbolta í dag.

Svíþjóð er öruggt upp úr milliriðli 1 eftir 26-22 sigur gegn Ungverjum í dag. Svartfjallaland eða Króatía mun fylgja þeim í 8-liða úrslitin en hvort liðið það verður skýrist á mánudag.

Í milliriðli 2 er nú ljóst að Þýskaland og Danmörk munu fara áfram. Þýska liðið vann Serbíu örugglega í dag, 31-21 og Danmörk vann Pólland, 32-22. Rúmenía og Pólland geta jafnað Danmörku að stigum í lokaumferðinni en Danmörk er með betri innbyrðisviðureign gegn báðum liðum og því öruggt áfram.

Þýska kvennalandsliðið í handbolta fagnar sigrinum gegn Serbíu á HM 2023
Þýska kvennalandsliðið í handbolta fagnar sigrinum gegn SerbíuEPA / Henning Bagger

Í riðli Íslands í forsetabikarnum vann Kína 32-24 gegn Grænlandi og því ljóst að Ísland og Kína munu spila úrslitaleik á mánudag um hvort liðið leikur til úrslita um forsetabikarinn. Sá leikur verður gegn Síle eða Kongó sem einnig mætast í úrslitaleik í hinum riðlinum.

Öll úrslit og stöður í riðlum má sjá á HM síðu RÚV.