Tékkland og Brasilía með góða sigra á HM
Áfram var leikið í milliriðlum á HM kvenna í handbolta í dag. Í milliriðli fjögur mættust Tékkland og Spánn en þær tékknesku þurftu nauðsynlega að sigra til að eiga möguleika á að komast í átta liða úrslit. Brasilía unnu svo stórsigur á nágrönnum sínum í Argentínu
Spánn var fyrir leikinn með 6 stig en Tékkland fjögur. Mikið jafnræði var með liðunum framan af en góður kafli Tékka undir lok hálfleiksins skilaði þeim fjögurra marka forystu í hálfleik 13-9. Tékkar höfðu svo aukið muninn í sjö mörk snemma í seinni hálfleik. Spánverjar svöruðu þá með fjórum mörkum í röð og aftur var munurinn fjögur mörk 19-15. Tékkarnir voru þó mun sterkari á lokakaflanum og unnu að lokum 30-22. Sigur Tékka galopnar riðilinn því eru Tékkland, Spánn og Holland öll með 6 stig eftir fjóra leiki.
Fyrr í dag mættust Brasilía og Argentína í sama riðli. Brasilía þurfti sigur til að eiga möguleika á að komast áfram. Og þær brasilísku voru mun sterkari frá upphafi til enda. Leiddu með 9 mörkum í hálfleik og unnu að lokum með 14 marka mun 33-19.