Athugið að þessi frétt er meira en 1 árs gömul

„Það situr aðeins í mér núna“

Almarr Ormarsson

,

Sunna Jónsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í handbolta, var svekkt með jafnteflið sem liðið gerði gegn Angóla í lokaleik liðsins í riðlakeppni HM. 26-26 urðu lokatölur og Ísland mun leika um forsetabikarinn en kemst ekki áfram í milliriðla.

„Ótrúlega svekkt, mjög svekkt,“ sagði Sunna. „Samt sem áður stolt af liðinu, við börðumst eins og ljón allan tímann. Margt gott í okkar leik, við höfðum fulla trú á verkefninu, okkur langaði mjög mikið að fara til Þrándheims. Þetta er bara hluti af lærdómnum sem við erum í á okkar vegferð en mjög, mjög svekkjandi.“

„Það gengur aldrei neitt allan tímann upp. Mér fannst við leysa vel ákveðna hluti inni í leiknum. Tvær vitlausar skiptingar, það er hluti að ákveðnu reynsluleysi hjá okkur og það situr aðeins í mér núna.“