Ísland leikur um Forsetabikarinn eftir spennuleik
Umfjöllun: Stelpurnar okkar geta borið höfuðið hátt eftir riðilinn
Ísland leikur um Forsetabikarinn eftir spennuleik
Stelpurnar okkar voru hársbreidd frá því að fara í milliriðil. Niðurstaðan varð jafntefli gegn Afríkumeisturum Angóla, 26-26. Þær geta borið höfuðið hátt eftir riðlakeppnina. Fram undan er keppni um Forsetabikarinn.
Ísland hóf leikinn í dag mun betur en fyrstu tvo leikina. Angóla komst yfir snemma leiks en Elín Jóna hélt uppteknum hætti frá leiknum gegn Frakklandi. Hún varði tvö skot í röð og Ísland komst inn í leikinn. Við stilltum upp í 5-1 vörn þar sem Sandra var fremst. Það reyndist vel en Angólar náðu ekki að skapa sér mikið.
Sandra kom Íslandi yfir í stöðunni 2-1 og var það í fyrsta sinn sem Ísland leiddi leik á HM. Skyldi engan undra enda Slóvenía og Frakkland margreynd lið á stórmótum. Lykillinn virtist vera að stöðva snöggar sóknir Angólakvenna. Því sneggri sem sóknin var því meiri líkur voru á marki frá Angóla.
Vestmanneyingurinn Elísa Elíasdóttir kom inn í hópinn í fyrsta sinn á mótinu. Hún fór strax að skapa usla eftir innkomu sína og skoraði tvö mörk með skömmu millibili. Elín Jóna sýndi einnig glæsilega takta með tvöfaldri vörslu. Fyrst var það víti og síðar frákastið.
Ísland komst í 10-12 forskot. Þjálfara Angóla var þá nóg boðið og tók leikhlé þar sem hann þrumaði yfir sínum leikmönnum. Tapaðir boltar fóru illa með okkur í fyrri hálfleik en við vorum með tíu slíka gegn fjórum Angólakvenna. Staðan var 15-14 þegar liðin gengu til búningsklefa.
Þáttur dómaranna
Það er ekki góður siður að tala um of um dómgæslu. En egypska dómarateymið átti ekki sinn besta í dag. Mark var dæmt af Söndru þegar hún var ekki lent og í fyrsta skoti leiksins fóru Angólakonur bersýnilega í skothönd Theu. Angólakonur fengu einnig ódýrt víti sem kom þeim í 25-24. Þá var dæmt skref á Elínu Rósu þegar hún braut sér leið í gegn og skoraði. Svona er dýrkeypt á stórmóti. En hvað um það. Dómgæsla er hluti af leiknum.
Erfið byrjun, upprisa og háspenna-lífshætta
Hálfleikurinn virtist eitthvað hafa farið illa í íslenska liðið. Stelpurnar fóru illa með dauðafæri í upphafi hans og þær angólsku komust í 19-14. Eftir átta mínútur í seinni hálfleik hleypti Þórey Rósa aftur lífi í leikinn. Skömmu síðar flaug Thea í gegn og skoraði. Staðan var orðin 19-16. Þá steig vítabaninn Elín Jóna aftur inn á sviðið og varði sitt annað víti í leiknum.
Eftir þetta komst íslenska vörnin aftur í gang. Staðan varð 20-19 eftir 43 mínútna leik. Staðan varð síðan 21-21 þegar fimmtán mínútur voru til leiksloka. Angóla kom sér þá í tveggja marka forystu, 23-21.
Þá steig Elín Rósa upp og skoraði tvö mörk með skömmu millibili. Nafna hennar Elín Jóna varði einnig vel þá og íslenska liðið var í gír á þessum tímapunkti.
Því miður féllu hlutirnir með Angóla á lokakafla leiksins og Afríkumeistararnir komu sér í 26-24 stöðu. Ísland kom til baka undir lokin þar sem Sandra Erlingsdóttir skoraði þrjú mörk. En niðurstaðan varð 26-26 jafntefli. Spennan var gífurleg á lokakaflanum en Ísland var skrefi eftir á. Jafntefli dugaði Angóla og fara því þær fram í milliriðil.
Sandra var valin maður leiksins en hún var markahæst í liði okkar með sex mörk. Auk þess lagði hún upp fjögur. Thea, Perla Ruth og Þórey Rósa bættu við þremur mörkum hver. Þá kom Elísa Elíasdóttir vel inn í sínum fyrsta leik á heimsmeistaramóti og skoraði þrjú mörk. Þriðja mark hennar var ótrúlegt. Alvöru línumannamark beint frá Vestmannaeyjum.
Stelpurnar okkar geta borið höfuðið hátt að riðlakeppni lokinni. Liðið hefði getað stolið sigri gegn Slóveníu í fyrsta leik sínum. Þá hefði liðið vel getað unnið í dag og farið áfram í milliriðil. Stigið í dag og reynslan almennt á HM telur þó upp á framtíðina að gera.
Núna er Forsetabikarinn fram undan og hann skal verða okkar. Nú erum við í annarri stöðu en áður þar sem við teljumst líklegri aðilinn í nær öllum leikjum sem eftir eru. Stelpurnar ætla sér vafalaust að vinna hann. Við tökum allt frá þessu heimsmeistaramóti með okkur yfir á næstu mót. Miðað við mótið í ár er íslenska liðið hvergi nærri hætt.
-JPÁ
Angóla leiðir með tveimur fyrir lokakaflann
Hlutirnir eru að falla með Afríkumeisturunum þessa stundina.
Hér sjáum við þriðja mark Elísu áðan.
Elín og Elín
Elín Rósa og Elín Jóna eru að stíga upp. Elín Rósa er búin að skora tvö mörk með skömmu millibili og Elín Jóna varði rétt í þessu glæsilega.
Hvað var að gerast? Hvernig skoraði Elísa?
Staðan er jöfn 24-24. Sex mínútur eru til leiksloka.
Spennan ógurleg fyrir lokakaflann
Angóla leiðir með tveimur þegar við erum komin í lokakafla leiksins.
Munurinn kominn niður í eitt mark
Staðan er nú eitt mark, 20-19. Vörnin er komin aftur í gang.
Þetta lítur betur út
Þórey Rósa skoraði fyrsta mark okkar í seinni hálfleik á 38. mínútu. Skömmu síðar skoraði Thea tvö mörk og Elín Jóna varði víti.
Staðan er nú 20-17 fyrir Angóla.
Angóla byrjað betur í seinni
Staðan er nú 18-14 Angóla í vil eftir 34 mínútna leik.
Íslenska sóknin hefur klúðrað góðum færum og Angólakonur hafa riðið á vaðið.
Angóla leiðir með einu í hálfleik
Staðan er 15-14 þegar liðin ganga til búningsklefa. Staðan er björt. Vörnin hefur staðið vaktina vel en það er helst að finna glufur á henni þegar Angóla nær að sækja hratt.
Ísland hefur tapað mun fleiri boltum en Angóla. Ef við finnum lausn á því auk þess að koma okkur fyrr til baka í vörnina eru okkur allir vegir færir.
Díana!
Vá! Þvílík hreyfing frá Díönu. Hún jafnar metin í 13-13. Mínúta er eftir af hálfleiknum en Angóla var rétt í þessu að skora. Staðan er 14-13.
Ísland leiðir!
Elín Jóna átti rétt í þessu glæsilega tvöfalda vörslu. Fyrst varði hún víti og síðar frákastið. Við geystumst fram í sókn og komumst yfir 8-9 með öðru marki Elísu. Auk þess fékk leikmaður Angóla tveggja mínútna brottvísun.
Elísa með sitt fyrsta mark
Elísa Elíasdóttir var kölluð inn í hópinn í fyrsta sinn á þessu móti. Hún var ekki lengi að setja mark sitt á leikinn er hún fékk sendingu og kláraði af öryggir.
Staðan er 8-8 eftir 18 mínútna leik.
Hér má sjá markið hjá Perlu.
Perla með markið
Þarna fengum við hraðaupphlaup! Boltinn sendur hratt fram á við og Perla Ruth var mætt fyrst inn í teig Angóla.
Rétt í þessu skoraði Sandra og staðan er 7-6.
5-4 og allt í járnum
Staðan er 5-4 fyrir Angóla eftir tíu mínútna leik en rétt í þessu fékk angólska liðið tveggja mínútna brottvísun. Nú þurfum við að nýta liðsmuninn!
Elín Jóna heldur áfram að verja
Elín Jóna hefur varið tvö skot nú þegar eftir að Angóla skoraði fyrsta markið.
Elín var maður leiksins gegn Frökku með fjórtán varin skot.
Þarna erum við! Thea Imani skoraði fyrsta mark okkar. 1-1 er staðan.
Leikurinn er hafinn
Heróp liðanna eru yfirstaðan og dómarinn hefur flautað leikinn á.
Ísland átti fyrstu sóknina sem lauk með skoti Theu. Angóla konur áttu þá snarpa sókn og eru komnar í 0-1.
Fimm mínútur í leik
Leikmannakynningar eru yfirstaðnar og fram undan eru þjóðsöngvar.
Guðni Th. Jóhannesson er meðal áhorfenda í dag og var sérstaklega kynntur til sögunnar. Sérsveitin er mætt og er í stuði.
Það er allt klárt - komum okkur í milliriðla!
Mótið á samfélagsmiðlum
Íþróttadeild RÚV birtir efni frá mótinu á öllum helstu samfélagsmiðlum. Á Instagram síðu okkar má finna stutt myndbönd frá keppnishöllinni og daglegum takti í Noregi. Á Instagram og Facebook undir heitinu 'Reels' má finna myndbönd þar sem við kynnumst stelpunum okkar betur.
Þá birtum við helstu tilþrif úr leikjum Íslands á X. Þær koma hér inn á leikdagsbloggið einnig. Einnig birtast allar helstu færslur á Facebook síðu okkar.
Endilega fylgið okkur á helstu miðlum.
Instagram: https://www.instagram.com/ruvithrottir/
X: https://twitter.com/ruvithrottir
Facebook: https://www.facebook.com/ruvithrottir
Við erum farin í loftið
Stofan er hafin þar sem sérfræðingarnir rýna í spilin. Slóvenía og Frakkland eru nú þegar komin áfram en spila úrslitaleik um efsta sæti riðilsins.
Afríkumeistarar Angóla búa yfir sterkum línumönnum og líklega má búast við því að mikið muni mæða á línumönnum Íslands. Hildigunnur Einarsdóttir spilar þar lykil rullu en þá kom Elías Elíasdóttir einnig inn í hópinn í fyrsta sinn. Það er spurning hvort hún komi við sögu í dag.
Þá leika þær Berglind Þorsteinsdóttir og Katrín Tinna Jensdóttir ýmist á línunni eða í vörn.
Viðtal við Arnar: „Við erum búnar að bíða eftir þessum leik“
Arnar Pétursson landsliðsþjálfari segir stelpurnar klárar í átökin. „Finnst eins og hópurinn sé nokkuð afslappaður en það er mikil tilhlökkun að takast á við þetta verkefni í kvöld.“
„Það er svolítið búið að bíða eftir þessu. Það verður að viðurkennast. Við erum búin að spila við Noreg og Frakka. Það var ákveðin tilhlökkun en á sama tíma ákveðinn kvíðahnútur sem er farinn. Nú reynir á okkur. Við erum búin að tala um spennustig. Við erum spenntir að sjá hvernig við komum út í þennan leik, og hvernig við byrjum hann. Það er tilhlökkun á mörgum sviðum.“
Hann segir teymið hafa breytt áherslum eitthvað ef miðað er við breytingar á liði Angóla frá æfingamótinu fyrir HM. Arnar segir að Angóla spili sóknarleik með sterkum klippingum og að liðið hafi undirbúið varnarleikinn út frá því.
Einungis sigur dugar liðinu til að halda áfram veru sinni í Noregi og að fara áfram í milliriðil. Með tapi fer liðið í Forsetabikarinn sem fer fram í Noregi.
„Okkur langar að halda áfram að vera hér. Við höfum bætt aðeins á pressuna með að segja það bara. Okkur langar að vinna þennan leik.“
Viðtalið má sjá í heild sinni hér að neðan.
Kristín á sínum stað
Það styttist í veislu dagsins. Stelpurnar okkar eru komnar út á gólf að hita upp. Stofan hefst innan skamms.
Þá er ofurstuðningsmaðurinn og Selfyssingurinn Kristín Steinþórsdóttir búin að koma sér vel fyrir. Kristín fór á sitt fyrsta stórmót 1978 og hefur fylgt landsliðum Íslands eftir á stórmótum síðan þá.
Það gefur manni trú að sjá Kristínu í stúkunni. Koma svo!
Svona hefur markaskorunin verið
Eftir tvö leiki gegn sterkum liðum Slóveníu og Frakklands hefur íslenska liðið skorað 46 mörk. Sandra er markahæst en hún hefur verið öryggið uppmála af vítalínunni. Sjö af hennar tólf mörkum eru úr vítum.
Sandra - 12
Thea Imani - 8
Perla Ruth - 6
Elín Rósa - 5
Þórey Rósa - 4
Þórey Anna - 2
Lilja - 2
Hildigunnur - 1
Katrín Tinna - 1
Andrea - 1
Sandra er klár í slaginn
Sandra Erlingsdóttir hefur leikið vel á mótinu og er markahæst í liðinu með tólf mörk.
„Þetta er skemmtilegt lið sko, alveg með flotta leikmenn og í raun betra en fólk myndi halda. En við höfum skoðað þær og erum búnar að sjá að það eru fullt af möguleikum. Hægt að gera betur en í síðasta leik, fínt að geta skoðað þann leik,“ sagði hún í viðtali fyrir leik.
Elísa inn fyrir Jóhönnu Margréti
Arnar Pétursson landsliðsþjálfari gerir eina breytingu á leikmannahóp Íslands frá síðustu tveimur leikjum. Línumaðurinn Elísa Elíasdóttir, leikmaður ÍBV kemur inn í lið Íslands í dag en Jóhanna Margrét Sigurðardóttir hvílir. Katla María Magnúsdóttir er áfram utan hóps.
Rúmir tveir tímar í leik
Nú eru rétt rúmlega tveir klukkutímar í að leikurinn við Angóla hefjist. Hér í höllinni í Stavanger er allt rólegt sem stendur en íslenskir áhorfendur eiga vafalaust eftir að láta vel í sér heyra á pöllunum á eftir.
Það er hugur í okkar konum
Landsliðskonan Lilja Ágústsdóttir er hvergi bangin fyrir leikinn gegn Angóla í dag. Hún segir markmið Íslands í dag vera að vinna Angóla og komast í milliriðil.
„Viljum vera þekktar fyrir að gefast ekki upp“
Okkar konur, Sandra Erlingsdóttir og Elín Jóna Þorsteinsdóttir, eru í viðtali á heimasíðu Alþjóðahandknattleikssambandsins í dag.
https://www.ihf.info/media-center/news/we-want-be-known-not-giving
Hvað segja sérfræðingarnir?
Karen Knútsdóttir, Kristín Guðmundsdóttir og Rakel Dögg Bragadóttir eru sérfræðingar Stofunnar á RÚV í kringum leiki Íslands á HM. Þær fara þar yfir málin með Einari Erni Jónssyni. Kvartettinn ræddi í gær möguleikana gegn Angóla í dag.
Menntuð í flokkunarfræðum?
Valskonurnar Þórey Anna Ásgeirsdóttir og Thea Imani Sturludóttir eru herbergisfélagar á HM. Þær slógu á létta strengi og lögðu spurningar fyrir hvor aðra, hvað þær vissu um hina.
Forseti Íslands verður á leiknum
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands verður meðal áhorfenda á leik Íslands og Angóla í Stafangri í kvöld. Vonandi verður vera hans til heilla, þannig Ísland vinni og komist áfram í milliriðlakeppni HM.
Meðfylgjandi mynd sýnir Guðna ásamt breskum eftirlitsmanni EHF á leik Íslands og Lúxemborgar í undankeppni EM 2024 á Ásvöllum í lok október. Eftirlitsmaðurinn dæmdi leiki sem Guðni spilaði í breska handboltanum á námsárum sínum.
Ísland tapaði fyrir Angóla á HM 2011
Ísland og Angóla voru líka saman í riðli síðast þegar Ísland lék á HM, sem var í Brasilíu árið 2011. Þá vann Angóla, 28-24 þar sem Stella Sigurðardóttir var markahæst í íslenska liðinu með sjö mörk.
Aðeins einn leikmaður íslenska liðsins í dag spilaði líka leikinn við Angóla á HM 2011, en það er Þórey Rósa Stefánsdóttir. Þórey skoraði tvö mörk í leiknum á HM 2011.
Þriggja marka tap á Posten Cup
Ísland og Angóla mættust í vináttuleik í Lillehammer á Posten Cup æfingamótinu 26. nóvember. Þann leik vann Angóla með þriggja marka mun, 27-24.
Ísland hvíldi þó Sunnu Jónsdóttur og Hildigunni Einarsdóttur í þeim leik. Angóla hvíldi líka markvörðinn sinn Teresu Almeida í þeim leik.
Dagskrá RÚV frá HM í dag
16:30 Stofan á RÚV. Einar Örn Jónsson, Karen Knútsdóttir, Kristín Guðmundsdóttir og Rakel Dögg Bragadóttir.
17:00 Ísland-Angóla á RÚV. Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson lýsir.
17:00 Ísland-Angóla á Rás 2. Gunnar Birgisson lýsir.
20:00 Frakkland-Slóvenía á RÚV 2. Gunnar Birgisson lýsir.
Landsliðsþjálfarinn segir Ísland verða að byrja vel í dag
Íslenska liðið var lengi í gang bæði á móti Slóveníu og gegn Frakklandi í fyrstu tveimur leikjum mótsins. Ljóst er að Ísland þarf að byrja leikinn við Angóla í dag af krafti frá fyrstu mínútu ætli Ísland að leggja Afríkumeistarana að velli.
Að duga eða drepast
Góðan dag og velkomin í fréttavakt okkar í kringum landsleik Íslands og Angóla á heimsmeistaramóti kvenna í handbolta. Liðin mætast klukkan 17:00 í hreinum úrslitaleik um það hvort liðanna kemst áfram í milliriðlakeppni mótsins.
Bæði Ísland og Angóla töpuðu fyrstu tveimur leikjum sínum í riðlinum fyrir Frakklandi og Slóveníu. Slóvenar unnu báða leikina eins í tölum, 30-24. Frakkar unnu Ísland hins vegar með níu marka mun en Angóla með eins marks mun.
Það þýðir að Angóla nægir jafntefli í dag til að komast í milliriðilinn en Ísland þarf að vinna leikinn. Milliriðillinn verður leikinn í Þrándheimi í Noregi. Tapliðið fer hins vegar í Forsetabikarinn sem leikinn verður í Fredrikshavn í Danmörku. Þar spila neðstu lið allra riðla HM um sæti 25-32.