Liðskonur Þóris örugglega á toppi riðilsins
Liðskonur Noregs tryggðu endanlega fyrsta sætið í riðli sínum á HM kvenna í handbolta með sigri gegn Asíumeisturum Suður-Kóreu, 33-23. Þórir Hergeirsson stýrir norska landsliðinu sem hefur gert það að vana sínum að næla í medalíur á síðustu stórmótum.
Staðan var 5-3 í upphafi leiks en þá gáfu þær norsku í og komu sér í 11-3. Eftir það var munurinn í og um níu mörk. Staðan í hálfleik var 20-11.
Líkt og oft vill verða þegar munurinn er svona mikill slökuðu þær norsku á klónni. Seinni hálfleikur var jafnari en sá fyrri og endaði 13-11. Noregur kláraði þó hálfleikinn af krafti fyrir framan heimaáhorfendur sína og skoraði sex mörk í röð áður en Eun-Hee Ryu skoraði lokamark leiksins.
Camilla Herrem var markahæst í liði heimakvenna með sjö mörk. Eun-Joo Shin leiddi Suður-Kóreu með sex mörk.
Mætir Ísland Noregi?
Ef Ísland vinnur Angóla á morgun mun liðið mæta Noregi, Austurríki og Suður-Kóreu í milliriðli. Austurríki varð í öðru sæti með fjögur stig en Suður-Kórea vann Grænland og var því í þriðja sæti með tvö stig. Leikið verður í milliriðlinum í Þrándheimi 6., 8. og 10. desember. Ef Ísland tapar gegn Angóla keppir liðið um Forsetabikarinn þar sem liðin í 27. til 32. sæti mætast. Leikið verður í Frederikshavn frá 7. til 13. desember.
Danmörk vann stórsigur gegn Chile og þá vann Svíþjóð lið Senegal örugglega.
Allar fréttir um mótið má finna á HM síðu íþróttadeildar RÚV.