Diljá er næst markahæst í Belgíu: „Ég hef ekki ennþá skorað landsliðsmark“
Diljá er nýgengin í raðir Leuven frá Norrköping í Svíþjóð en þar áður lék hún með Häcken þar í landi og hér á landi með FH, Stjörnunni og Val. „Ég er að læra heilan helling þarna og gengur vel og líður vel,“ segir Diljá sem er í íslenska landsliðshópnum fyrir tvo heimaleiki í Þjóðadeildinni á Laugardalsvelli, gegn Danmörku á föstudag og Þýskalandi á þriðjudag.
Diljá hefur byrjað með látum í belgísku úrvalsdeildinni og skorað sex mörk í fjórum leikjum með Leuven sem trónir á toppi deildarinnar. Hún er næst markahæst í deildinni, einu marki á eftir þeirri markahæstu. Hún kemur því full sjálfstrausts í þennan landsleikjaglugga.
„Já klárlega og markmiðið er að koma hingað og gera það sama, reyna að skora einhver mörk, ég hef ekki ennþá skorað landsliðsmark. Vonandi kemur það í þessum glugga.“