Blær og María Íslandsmeistarar í frisbígolfi
Frisbígolf eða folf hefur notið vaxandi vinsælda síðustu ár og hefur frisbígolfvöllum fjölgað jafnt og þétt um land allt. Fyrsta Íslandsmótið í frisbígolfi var haldið árið 2002 og hefur keppendum í greininni fjölgað samhliða auknum áhuga. 70 keppendur tóku þátt í Íslandsmótinu að þessu sinni.
Í opnum flokki karla stóð Blær Örn Ásgeirsson uppi sem Íslandsmeistari í fjórða sinn. Blær er fyrsti íslenski atvinnumaðurinn í íþróttinni. „Ég er mjög sáttur með hvernig ég spilaði á þessu móti og fínt að fá Íslandsmeistaratitilinn til baka.“
Í meistaraflokki kvenna var það María Eldey Kristínardóttir sem fagnaði sínum þriðja Íslandsmeistaratitli í röð. „Þó að ég kasti mjög langt þá tel ég að ég sé mjög góð í að hitta línurnar mínar þannig að spila á svona skógarvöllum getur oft hentað mér mjög vel.“