„Ég er í skýjunum“
Breiðablik varð í kvöld fyrsta íslenska karlaliðið til að komast áfram í riðla Evrópukeppni í fótbolta eftir sigur á Struga. Breiðablik vann báða leikina 1-0 en mark Blika í kvöld skoraði Viktor Karl Einarsson sem var í skýjunum eftir sigurinn.
„Tilfinningin er eiginlega bara ólýsanleg. Ég vissi ekkert við hverju ég átti að búast og við fórum bara inn í leikinn og þetta endaði svona og þá trylltist allt eðlilega,“ sagði Viktor Karl eftir leikinn.
Mark Viktors kom strax á þriðju mínútu leiksins en hann segist lítið muna eftir markinu. „Boltinn datt og ég ákvað að láta vaða og hann endaði í netinu.“
Viktor sagðist hafa hugsað um leikinn í allan dag og að hann hafi verið með fiðrildi í maganum en honum fannst það gott því þá vissi hann að eitthvað merkilegt væri að fara að gerast.