Spænska úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu krefst brottreksturs forseta spænska knattspyrnusambandsins, Luis Rubiales.
EPA
Hann hefur legið undir þungu ámæli fyrir að taka um höfuð landsliðskonunnar Jennifer Hermoso og kyssa á munninn eftir að Spánverjar tryggðu sér heimsmeistaratitilinn í knattspyrnu á sunnudag.
Í yfirlýsingu deildarinnar segir að með athæfi sínu hafi Rubiales varpað skugga á eitt mesta íþróttaafrek spænskrar sögu. Hann hafi enn einu sinni sýnt og sannað að hann sé ófær um að sinna starfi sínu með sæmd. Rubiales kveðst sjá eftir hegðun sinni og viðurkennir að hafa gert mistök. Hann eigi þó í góðu sambandi við Hermoso líkt og aðrar landsliðskonur.