England áfram eftir vítaspyrnukeppni og rautt spjald
England er komið áfram í 8-liða úrslit heimsmeistaramótsins í fótbolta eftir sigur á Nígeríu í vítaspyrnukeppni. Enska liðið spilaði með tíu leikmenn alla framlenginguna eftir að Lauren James fékk beint rautt spjald.
Markalaust var eftir venjulegan leiktíma og undir lok hans fékk Lauren James, markahæsti leikmaður Englands á mótinu, beint rautt spjald fyrir að stíga á Michelle Alozie. England var því einni færri alla framlenginguna en þar var heldur ekkert skorað og því farið í vítaspyrnukeppni.
Georgia Stanway skaut fram hjá úr fyrsta víti Englands en það gerðu Desire Oparanozie og Michelle Alozie úr fyrstu tveimur spyrnum Nígeríu líka. Bethany England, Rachel Daly og Alex Greenwood skoruðu úr spyrnum tvö, þrjú og fjögur fyrir England og Chloe Kelly gat því tryggt sigurinn með því að skora úr fimmtu spyrnunni.
Það gerði hún og 4-2 sigur Englands í vítakeppni niðurstaðan. Enska liðið mætir annað hvort Kólumbíu eða Jamaíku en þau eigast við á morgun í leik sem hefst klukkan 08:00 og er sýndur beint á RÚV.