Holland varð í nótt þriðja liðið til að komast í 8-liða úrslit á HM kvenna í fótbolta eftir 2-0 sigur á Suður-Afríku.
Hollenska liðið byrjaði af krafti og Jill Roord skoraði fyrsta mark leiksins á 9. mínútu eftir hornspyrnu. Þær suðurafrísku beittu skyndisóknum og minnstu mátti muna að Thembi Kgatlana kæmi boltanum í netið en hún átti fjögur skot á markið í fyrri hálfleik. Staðan í hálfleik var hins vegar 1-0.
Lineth Beerensteyn tvöfaldaði forystuna á 68. mínútu og eftir það var sigurinn aldrei í hættu. Hollenska liðið hélt í boltann og Suður-Afríka náði ekki að ógna að neinu viti í seinni hálfleik. Mótið þeirra er því búið en Holland mætir Spáni í 8-liða úrslitum 11. ágúst.