5. ágúst 2023 kl. 6:57
Íþróttir
HM í fótbolta 2023

Spánn fyrsta liðið í 8-liða úrslit

16-liða úrslit HM í fótbolta hófust í nótt þegar Sviss og Spánn mættust í Auckland á Nýja-Sjálandi. Spænska liðið hristi hressilega af sér afleitan lokaleik riðlakeppninnar.

Leikurinn byrjaði með miklum látum og Aitana Bonmatí skoraði fyrir Spán á 5. mínútu. Það var fyrsta markið sem Sviss fær á sig á mótinu. Sviss jafnaði reyndar sex mínútum síðar þegar Laia Codina skoraði sjálfsmark. Eftir það var aðeins eitt lið á vellinum; Alba Redondo kom Spáni aftur yfir á 17. mínútu, Aitana skoraði aftur á þeirri 36. og Codina skoraði í rétt mark á lokamínútu hálfleiksins.

Í seinni hálfleik skoraði Jennifer Hermoso svo fimmta mark Spánar og 5-1 fór.

Spánn flaug því inn í 8-liða úrslit og mætir þar annað hvort Hollandi eða Suður-Afríku, en þau lið eigast við í nótt klukkan tvö og er leikurinn sýndur beint á RÚV.

Aitana Bonmati fagnar marki sínu gegn Sviss í 16-liða úrslitum HM 2023.
EPA