Holland rúllaði áfram - Bandaríkin sluppu í gegn
Keppni lauk í morgun í E-riðli HM í fótbolta. Holland og Bandaríkin fara áfram, en Portúgal situr eftir.
Fyrir leiki morgunsins var ljóst að Víetnam væri úr leik. Holland þurfti samt að fá stig gegn þeim til að vera öruggt með sæti sitt í 16-liða úrslitum. Hollenska liðið sýndi enga miskunn og vann 7-0 og flaug áfram.
Mikil spenna var svo hjá Bandaríkjunum og Portúgal. Bandaríkjunum nægði jafntefli en Portúgal varð að vinna eða treysta á tap Hollands að öðrum kosti.
Bandaríska liðið hafði undirtökin gegn Portúgal allan leikinn og sótti af krafti en mörkin létu á sér standa. Portúgal komst næst því að skora þegar þær áttu stangarskot í uppbótartíma. Mark þar hefði sent Bandaríkin heim og Portúgal áfram.
Úr því varð þó ekki. Leikurinn fór 0-0 og Bandaríkin fylgja Hollandi áfram en Portúgal situr eftir ásamt Víetnam. Holland endar efst í riðlinum með betri markatölu en Bandaríkin. Andstæðingarnir í 16-liða úrslitum eru liðin úr G-riðli þar sem Svíþjóð er í lykilstöðu á undan Ítalíu. Úrslit í þeim riðli ráðast í fyrramálið.
Núna klukkan 11 eru svo lokaleikir D-riðils. Kína gegn Englandi er á RÚV og Danmörk gegn Haíti á RÚV 2.