31. júlí 2023 kl. 12:14
Íþróttir
HM í fótbolta 2023

Ástralía áfram - Ólympíumeistararnir úr leik

Keppni lauk í dag í B-riðli HM í fótbolta. Talsverð spenna var fyrir daginn, enda gátu þrjú af fjórum liðum riðilsins ennþá komist áfram.

Nígería og Írland gerðu markalaust jafntefli og það tryggði sæti Nígeríu í 16-liða úrslitum, óháð úrslitunum hjá Kanada og Ástralíu.

Þar var því hreinn úrslitaleikur um sæti í útsláttarkeppninni og dugði Kanada jafntefli. Ástralía varð að vinna og það gerðu þær svo sannarlega með stæl. Ástralía vann 4-0 og sendi Ólympíumeistara Kanada út úr keppninni. Þetta er í fyrsta sinn sem Ólympíumeistarar komast ekki áfram í útsláttarkeppni HM.

Ástralía enda efst í riðlinum og Nígería í öðru sæti. Þau mæta liðunum úr D-riðli, en þar ráðast úrslit á morgun. England er efst í riðlinum og mætir Kína og Danmörk mætir Haíti en öll fjögur liðin eiga enn möguleika á að komast áfram.

EPA