30. júlí 2023 kl. 9:10
Íþróttir
HM í fótbolta 2023

Nor­eg­ur vakn­aði og komst áfram - Sviss fylgir

Keppni lauk í A-riðli HM í fótbolta í morgun. Fyrir lokaumferðina gátu öll fjögur lið riðilsins komist áfram.

Norska liðið hafði verið í miklu basli á mótinu í fyrstu tveimur umferðunum en þær vöknuðu til lífsins í dag og unnu Filipseyjar með sex mörkum gegn engu. Sophie Roman Haug skoraði þrennu fyrir Noreg og þær Caroline Graham-Hansen og Guro Reiten sitt hvort markið auk þess sem Alicia Barker skoraði sjálfsmark.

Noregur fer því áfram í 16-liða úrslit og Sviss sömuleiðis. Sviss gerði markalaust jafntefli við Nýja-Sjáland sem situr eftir. Sviss fékk fimm stig í riðlinum, Noregur og Nýja-Sjáland 4 og Filipseyjar 3. Noregur er með betri markatölu en Nýja-Sjáland og það telur meira en innbyrðisviðureign liðanna, sem Nýja-Sjáland vann.

Sviss og Noregur mæta liðunum úr C-riðli í 16-liða úrslitum. Þar eru Japan og Spánn komin áfram en þau mætast á morgun og þá ræðst röð liðanna í riðlinum endanlega.

EPA