29. júlí 2023 kl. 9:47
Íþróttir
HM í fótbolta 2023

Stórkostlegir Svíar skoruðu fimm

Fyrsti leikur dagsins á HM kvenna var viðureign Svía og Ítala í Wellington á Nýja-Sjálandi. Leikurinn fór vel af stað fyrir Ítali sem fengu fyrsta færi leiksins eftir rétt tæpa hálfa mínútu en Musovic í marki Svía varði frá Sofiu Cantore. Svíar unnu sig jafnt og þétt inn í leikinn og á 39. mínútu fengu þær hornspyrnu sem miðvörðurinn Amanda Ilestedt skoraði úr með glæsilegum skalla, sex mínútum síðar var það svo Fridolina Rolfo sem skoraði eftir aðra hornspyrnu með skoti af stuttu færi. Í uppbótartíma fyrri hálfleiks gerði svo Stina Blackstenius nánast út um leikinn þegar hún skoraði þriðja mark Svía eftir gott samspil og þannig var staðan í hálfleik.

Ilestedt var svo aftur á ferðinni snemma í seinni hálfleik þegar hún skoraði enn eitt markið eftir hornspyrnu og undir blálokin fullkomnaði varamaðurinn Rebecka Blomqvist síðan frábæran leik Svía með því að skora fimmta mark leiksins og þar við sat. 5-0 og þær sænsku öruggar áfram í 16-liða úrslitin.