29. júlí 2023 kl. 12:26
Íþróttir
HM í fótbolta 2023

Renard skoraði dýrmætt sigurmark Frakka í lokin

Fyrirliðinn Wendie Renard skoraði síðbúið og mikilvægt sigurmark Frakka gegn Brasilíu í 2-1 sigri í stórleik dagsins á HM kvenna í fótbolta í dag. Frakkar eru nú með 4 stig á toppi F-riðils, stigi ofar en Brasilía en Jamaíka getur náð Frökkum að stigum með sigri á Panama síðar í dag.

Wendie Renard of France (C) celebrates with teammates after scoring a goal during the FIFA Women's World Cup 2023 soccer match between France and Brazil at Brisbane Stadium in Brisbane, Australia, 29 July 2023. EPA-EFE/JONO SEARLE AUSTRALIA AND NEW ZEALAND
EPA-EFE/JONO SEARLE

Eugénie Le Sommer kom Frökkum yfir í fyrri hálfleik en Debinha jafnaði fyrir Brasilíu á 58. mínútu. Það var svo komið fram á 83. mínútu þegar Renard skoraði sigurmark Frakka. Frakkar eru því enn taplausir í öllum viðureignum sínum gegn Brasilíu, sjö sinnum hafa Frakkar unnið en fimm sinnum hafa þjóðirnar gert jafntefli.

Nú klukkan 12:30 hefst leikur Panama og Jamaíka í beinni útsendingu á RÚV. Panama er án stiga í riðlinum en Jamaíka er með eitt stig eftir markalaust jafntefli við Frakka í fyrstu umferð.