Hjólreiðakappinn Hafdís Sigurðardóttir hjólaði 1012 kílómetra yfir helgina í líkamsræktarmiðstöðinni Bjargi á Akureyri. Þolraun hennar hófst á föstudaginn og lauk í hádeginu á sunnudag. Allan þennan tíma hjólaði hún á 22 kílómetra hraða á klukkustund í 45 klukkutíma.

Þrátt fyrir erfiðið var Hafdís einkar létt í lund í viðtali við íþróttadeild RÚV. Þá hafði hún hjólað 990 kílómetra. Hafdís keppir fyrir hjólreiðafélag Akureyrar og er núverandi handhafi titilsins hjólreiðakona ársins auk þess að vera ríkjandi Íslandsmeistari í götuhólreiðum. Hafdís leit á þolraunina sem persónulega áskorun auk þess sem hún er liður í að búa hana undir komandi hjólatímabil.

Sölvi Andrason tók viðtalið.

Lagði Hafdís af stað í staðbundin leiðangur sinn klukkan 15:00 á föstudaginn og hjólaði 22 kílómetra á klukkustund að meðaltali.

„Mér líður bara ótrúlega vel. Það eru einhverjir líkamspartar farnir að kvarta en heilt yfir er ég góð.“ Hugmyndin spratt fram fyrir um hálfu ári en Hafdís var meira en tilbúin í verkefnið. Dyggur hópur stuðningsfólks mætti á svæðið og ýmist hjólaði með eða studdi Hafdísi.

„Ég fékk þessa hugdettu út frá Bakgarðshlaupinu, og fannst þetta ógeðslega spennandi. Mig langaði að prufa þetta og er búin að ganga með þetta í kollinum síðan í sumar. Ég ákvað bara að láta slag standa og testa þetta.“

Þrátt fyrir álagið var líkaminn í ágætis ásigkomulagi. „Ég átti aldrei von á að endast þennan tíma. Ekki svona lengi. Ég hélt ég yrði miklu fyrr þreytt í lærunum og svoleiðis. Ég hélt að bakið og axlirnar myndu gefa sig. Ég er bara góð í bakinu og öxlunum. Annað hnéð er svolítið farið að kvarta og ég er aðeins byrjuð að stífna í öðru lærinu, en annars er ég bara góð. En það verður örugglega fljótt að breytast,“ sagði Hafdís létt.

Næring var lykilþáttur í aflrauninni en Hafdís lagði hitt og þetta sér til munns. 

„Ætli ég sé ekki búin að borða 20 banana. Ég er búin að borða allt milli himins og jarðar.“

Þá ræddi Hafdís einnig umhverfi afreksíþróttafólks á Íslandi. Hún þarf sjálf að standa allan straum af kostnaði í kring um kostnað við keppnir og búnað. Því safnaði Hafdís áheitum samhliða afrekinu.

Þórdís Rósa Sigurðardóttir móðir hennar var einnig til viðtals en hún var mætt á svæðið til að styðja Hafdísi.