Fótfráasti maður Íslandssögunnar, Ari Bragi Kárason, tilkynnti í gærkvöldi að hann væri hættur spretthlaupum. Ari Bragi átti snarpan en viðburðarríkan feril í en segir kominn tíma til að sinna öðrum hugðarefnum.
„Ég hef fengið tækifæri til að líta aðeins í eigin barm síðasta árið. Það er komið nýtt líf inn á heimilið, ég er orðinn 32 ára og það var allt sem sagði mér að setja orkuna í eitthvað annað en vera á hlaupabrautinni þrjá tíma á dag sjö daga vikunnar,“ sagði Ari Bragi um ástæðu þess að hætta á þessum tímapunkti.
Stutt en viðburðarík saga
Ari Bragi er 32 ára gamall en hóf ekki að stunda spretthlaup að neinu ráði fyrr en fyrir sjö árum síðan. Það reyndist stórgóð ákvörðun því hann sló þá 19 ára gamalt Íslandsmet Jóns Arnars Magnússonar árið 2016 og bætti það svo ári síðar og stendur met hans, 10,51 sekúnda, enn óhaggað.
„Þetta var fljótt að gerast hjá mér og í rauninni stutt saga, en svakalega viðburðarrík, að minnsta kosti fyrir mig,“ segir Ari Bragi en bætir við.
„Topparnir á ferlinum eru ekki metin. Topparnir eru æfingarnar og félagarnir sem maður eignast. Ég kem úr listaheiminum og kynnist svo þessum afreksheimi. Það var alveg mögnuð reynsla og opnaði minn huga alveg upp á nýtt,“ segir Ari.
Keppt 100 sinnum í 100 metra hlaupi
„Ég hef aðeins verið að fara yfir ferilinn síðustu daga og mér telst til að ég hafi keppt 100 sinnum í 100 metra hlaupi sem er svolítið falleg tala,“ segir Ari sem getur nú einbeitt sér enn frekar að tónlistinni, en Ari Bragi er einn besti trompetleikari landsins.
„Nú get ég aftur farið með báða fætur á það svið. Við ætlum reyndar að flytja til Danmerkur á næstunni og skipta um umhverfi og sjá hvað það gefur okkur.“