Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag tvær konur og einn karl fyrir eignaspjöll með því að kveikja í svokallaðri jólageit IKEA aðfaranótt 14. nóvember síðastliðins. Fólkið er dæmt til að greiða 150 þúsund króna sekt í ríkissjóð hvert, en tæplega 1,7 milljóna króna bótakröfu IKEA var hins vegar vísað frá dómi.

Fólkið er á aldrinum 24 til 28 ára. Einungis karlmaðurinn játaði sök, en dómurinn kemst að þeirri niðurstöðu að þau hafi öll staðið saman að því að kveikja í geitinni.

Þau voru handtekin við Grímsbæ á Bústaðavegi eftir að starfsmaður IKEA hafði séð til þeirra kveikja í geitinni á öryggismyndavél og veitt þeim eftirför. Lögregla mætti þeim svo á Bústaðaveginum og handtók þau þar.

Sagði brunann ókeypis auglýsingu fyrir IKEA

Maðurinn var mjög ölvaður, angaði af bensínlykt og hann viðurkenndi strax í lögreglubílnum að hann hefði kveikt í geitinni. Lögregluþjónninn sem flutti hann á lögreglustöð segir að hann hefði hlegið að öllu saman og gortað sig af því, sagt að hann teldi að hann hefði í raun gert IKEA greiða með þessu, þetta væri ókeypis auglýsing fyrir fyrirtækið og að með réttu hefði IKEA átt að borga honum fyrir verknaðinn.

Konurnar vildu minna segja, önnur sagðist hafa verið ölvuð og að hún myndi lítið en gekkst við því að hafa keypt bensín á brúsa og hin viðurkenndi að hafa ekið með fólkið upp að geitinni en sagðist ekki hafa vitað hvað fólkið ætlaðist þar fyrir.

Vanreifuð bótakrafa IKEA

Niðurstaða dómsins er að þau hafi öll átt jafnan þátt í íkveikjunni og er þeim öllum gert að greiða 150 þúsund króna í sekt í ríkissjóð fyrir brotið. Greiði þau ekki sektina kemur tíu daga fangelsi í hennar stað. Þau þurfa líka að greiða verjendum sínum á bilinu 420 til 506 þúsund krónur hvert.

IKEA gerði kröfu um að fólkið greiddi fyrirtækinu tæpar 1,7 milljónir í skaðabætur með vöxtum fyrir geitina. Í dómnum segir hins vegar að ekki liggi fyrir mat á verðmæti geitarinnar, bótakrafa IKEA sé óljós um margt og þar með svo vanreifuð að óhjákvæmilegt sé að vísa henni frá dómi.

Þetta veldur því sömuleiðis að fólkið fékkst ekki dæmt fyrir stórfelld eignaspjöll eins og það var ákært fyrir, enda lá ekkert fyrir um það hversu mikið tjón hlaust af íkveikjunni. Í staðinn var það bara dæmt fyrir eignaspjöll.