Heimahverfið, þá nýjasta hverfi Reykjavíkur, fékk slæma útreið í grein sem Hörður Ágústsson, listmálari, skrifaði í tímaritið Birtíng 1960. Sundurleitur byggingarstíllinn fór í taugarnar á Herði og í greininni kallaði hann hverfið, sem þá var nefnt Hálogalandshverfið, hinn „skörðótta hundskjaft eftirstríðsáranna.“
Greinin var viðbragð við útgáfu bókarinnar Íslenzk íbúðarhús, sem Almenna bókafélagið gaf út. Í henni finnur Hörður íslenskri byggingarlist eftir seinna stríð flest til foráttu. „Örlagaríkir viðburðir í þjóðarsögu örfa þá öfugþróun, er fyrr var frá sagt, ekki sízt heimsstyrjöldin síðari og hernám Íslands. Tál þess gróða, sem í kjölfarið sigldi, hefur margan ginnt og spillt ótrúlega fyrir þeirri viðleitni, sem tók að bæra á sér á árunum milli 1930 og 1940 að koma hér skynsamlegu nútímayfirbragði á byggðarmenningu.“
Gagnrýni Harðar beindist að því að í Goðheimum fylgdu fæst húsin settum skilmálum um hverfið; húsin áttu til að mynda að vera tvær hæðir, en urðu fjórar og þakformin sitt með hverju laginu. „Þessu háttalagi mætti líkja við það, að myndlistarmaður teiknaði frumdrætti verks, stillti því út á almannafæri ásamt litum og pentskúf og léti vegfarendur um að setja sinn litinn hver inn á þá grind, sem listamaðurinn hafði reist á fleti sínum,“ sagði Hörður. „Menn munu sammála um að slíkt væru furðuleg vinnubrögð.“
Fjallað var um byggingarlist og borgarskipulag síðan 1960 á Íslandi í Steinsteypuöldinni. Horfa má á þáttinn í Sarpinum.