Kvikmynd Ísoldar Uggadóttur, Andið eðlilega, er heimsfrumsýnd í dag á Sundance kvikmyndahátíðinni í Utah í Bandaríkjunum. Kristín Þóra Haraldsdóttir leikkona, sem fer með eitt aðalhlutverkið í myndinni, segir spenninginn mikinn í hópi íslensku aðstandendanna sem búa öll saman í húsi.

„Þetta er svolítið stór dagur hjá okkur öllum,“ útskýrir Kristín Þóra í viðtali við Síðdegisútvarpið og neitar því ekki að í mörg horn sé að líta áður en hópurinn heldur á rauða dregilinn og kvikmyndahúsið í framhaldinu. „Þetta er ótrúlega spenanndi og magnað. Þetta er svolítið öðruvísi tilfinning en að vera í leikhúsi, þar sem ég hef verið mikið, nú get ég ekkert gert annað en að mæta. En þeir sem hafa séð hafa verið rosalega ánægðir, fólk hefur gengið upp að okkur hér á hátíðinni og þakkað okkur fyrir þannig að ég er spennt.“

Kristín Þóra segir að íslenski hópurinn sé samheldur og undirbúa sig í sameiningu, lána hársprey á milli herbergja enda þurfi að vera þokkalega til fara þegar rauði dregilinn bíður. 

Andið eðlilega verður frumsýnd í kvikmyndahúsum á Íslandi í febrúar.