Ása Ketilsdóttir býr á Laugalandi í Skjaldfannardal þar sem Steinn Steinarr ólst upp, en hún var ekki mikill aðdáandi kveðskapar hans á yngri árum, þótt hún hafi síðar tekið hann í sátt.
Sjálf er Ása hagyrt en einnig með græna fingur, og er búin að koma upp einstökum blómagarði á slóðum þar sem mjög kalt er á vetrum, og þarf mikla natni til að halda við. Ása segist hugsa um blómin eins og börnin sín en ein rós er henni þó sérstaklega kær. „Hún heitir keisarakróna, ég keypti þann lauk mjög skömmu eftir að ég kom hingað, og setti hann niður. Vor eftir vor kom smá planta upp, og visnaði svo aftur. Þangað til eftir 50 ár, þá ákvað hún að eiga hér heima, og síðan hefur hún blómstrað í nokkur ár. Það tók hana 50 ár að búa um sig, en það gladdi mig mikið þegar hún kom upp. Þannig að ég bara orti ljóð um hana.“
Rætt er við Ásu Ketilsdóttur í næsta þætti af Ferðastiklum sem eru á dagskrá RÚV á fimmtudagskvöldum klukkan 20:05. Hægt er að sjá brot úr viðtalinu, og flutning Ásu á ljóðinu til rósarinnar, í spilaranum hér að ofan.