Frá því að fyrstu sérleyfin voru veitt til olíuleitar á Drekasvæðinu norðaustur af Íslandi hafa félögin sem leita greitt röskar 400 milljónir króna í ríkissjóð. Áætla má að kostnaður vegna rannsókna þeirra sé á bilinu 4-5 milljarðar króna. Fimm ár eru nú frá því að fyrstu leyfin voru veitt og alls hafa verið gefin út þrjú leyfi til leitar á tilteknum svæðum.

Félög sem stóðu að tveimur þeirra hafa sagt sig frá leyfunum meðal annars vegna þess að jarðlögin voru mjög þykk og erfitt að glöggva sig á því hvað hugsanlega leynist undir þeim. Eftir stendur einn hópur, með kínverska ríkisolíufélagið CNOOC  sem fer með 60% hlut, Eykon energy  með 15% og í eigu Íslendinga og loks Petoro Iceland, sem er í eigu norska ríkisins, með 25%. Leyfi hópsins sem eftir stendur gildir til 2026 en fyrir 23. janúar þarf félagið að svara því hvort það ætlar að halda áfram því að það getur á þessum tímamótum tekið pokann sinn og hætt. Ekkert svar hefur borist fá hópnum um framhaldið. En er hægt að segja að þetta sé búið spil vegna þess að hinir hóparnir hættu vegna erfðrar jarðlaga?  Skúli Thoroddsen lögfræðingur hjá Orkustofnun segist ekki myndu taka svo djúpt í árinni. „Rannsóknirnar sem hafa farið fram eru gífurlega umfangsmiklar. Ég get reyndar fullyrt að í sögu landgrunnsins hafa aldrei átt sér stað svo umfangsmiklar rannsóknir. Þannig að gögnin sem hefur verið aflað eru gífurlega mikils virði. Maður skyldi aldrei segja aldrei þegar horft er til lengri tíma. Ég minni bara á að í Noregi tók meira en fjögur til fimm ár að átta sig á því að þar fyndist olía. Þó að ekkert hafi fundist við Ísland þá gerði enginn ráð fyrir því í alvöru að slíkt myndi gerast fyrr en í fyrsta lagi eftir kannski 10-15 ár,“  segir Skúli.

Tæplega hálfur milljarður í ríkiskassann

Í upphafi var sagt að rannsóknir myndu taka langan tíma áður en hugsanlega yrði byrjað að bora eftir olíu. Nú er einungis að ljúka fyrsta kafla sem felst í greiningu gagna og tvívíddarrannsóknum á berglögum. Við taka þrívíddarrannsóknir og loks tilraunaboranir og reyndar alls konar aðrar rannsóknir. Allt þetta gæti tekið rúm 20 ár. En á þeim fimm árum sem liðin eru hafa fyrirtækin lagt út í umtalsverðan kostnað. Skúli segir að það sé ekki hlutverk Orkustofnunar að upplýsa um þennan kostnað en hann geti þó slegið á hugsanlegan kostnað.  „Hins vegar veit ég að fyrirtækin hafa greitt leyfisgjöld til íslenska ríkisins sem eru um hálfur milljarður króna á þessum árum eða um 100 milljónir á ári. Miðað við það verðlag sem er í dag myndi ég ætla að leitarkostnaðurinn sé ekki undir 4-5 milljörðum. Að vísu hef ég heyrt hærri tölur nefndar en ég ætla ekki að bera ábyrgð á þeim,“ segir Skúli.

Nánar er rætt við Skúla Thoroddsen í Speglinum.