Viðtökurnar eru ótrúlega góðar, segir íslensk kvikmyndagerðakona en mynd hennar Andið eðlilega er ein tólf kvikmynda sem keppa á Sundance kvikmyndahátíðinni í Bandaríkjunum. Myndin var frumsýnd á hátíðinni í gær. okkur finnst við þegar hafa unnið með því að vera hérna. Þannig að við erum bara glöð með myndina og viðtökurnar þannig að allt annað væri fullkominn bónus,“ segir Ísold Uggadóttir kvikmyndagerðakona.

Andið eðlilega er fyrsta kvikmynd Ísoldar Uggadóttur í fullri lengd. Hún var valin úr hópi fjölda kvikmynda á erlendri tungu og keppir við ellefu aðrar myndir um að verða valin besta myndin á kvikmyndahátíðinni Sundance í Utah í Bandaríkjunum. Myndin var frumsýnd í gærkvöldi og Ísold er ánægð með viðtökurnar.

„Já, ótrúlega. Mikið komið til okkar og okkur þakkað fyrir myndina. Það voru Íslendingar í salnum líka. Það skipti ekki máli hvort það voru Íslendingar eða útlendingar, það voru allir einhvern veginn svona saman í þessu. Þetta var ákveðin geðshræring einhvern veginn,“ segir Ísold.

Myndin segir frá hælisleitanda á leið til Kanada sem verður strandaglópur í Keflavík eftir að hafa verið stöðvuð við vegabréfaeftirlit . Um leið og hún berst við kerfið á Íslandi, tengist hún óvænt einstæðri móður í húsnæðisbasli. Ísold kynntist sögum hælisleitenda þegar hún var sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum.

„Og þessar átakanlegu sögur voru þess eðlis að mér fannst skrýtið að enginn væri að gera bíómyndir á Íslandi alla vega um eitthvað sem tengdist þessu,“ segir Ísold.

Myndin verður sýnd á hátíðinni út vikuna og á laugardag kemur í ljós hver verður valin besta myndin. „Við erum að keppa þarna, við tólf. En okkur finnst við þegar hafa unnið með því að vera hérna. Þannig að við erum bara glöð með myndina og viðtökurnar þannig að allt annað væri fullkominn bónus,“ segir Ísold.

Næst er svo förinni heitið til Svíþjóðar. „Við förum til Gautaborgar með myndina. Henni var boðið þangað til að keppa um hin svokölluðu drekaverðlaun um bestu norrænu kvikmyndina og svo förum við með hana til Íslands, væntanlega seinnipartinn í febrúar,“ segir Ísold.