Sigrún Einarsdóttir, eini starfandi glerblásari landsins, slökkti á glerblástursofni sínum í síðasta skipti í dag. Hún hefur verið í þrjá og hálfan áratug við ofninn og óttast að glerblástur deyi út.
Sigrún hefur verið ein fárra sem hafa blásið gler hér á landi síðustu ár og áratugi. Hún hefur komið sér vel fyrir á verkstæði sínu á Kjalarnesi. Þar sýnir hún verkin sem eru mjög fjölbreytt en á verkstæðinu á neðri hæðinni er meiri hiti og þar gerast hlutirnir.
Sigrún virðist kunna vel við sig í hitanum, enda ýmsu vön, en hvers vegna ætlar hún að hætta? „Það eru eiginlega nokkrar ástæður fyrir því. Aldurinn vinnur ekki með mér, svo er það íslenska kerfið, það er ekkert ódýrt að blása gler á Íslandi og svo númer þrjú, mig langar svolítið að eiga líf fyrir dauðann. Þetta getur verið mikið stress og amstur. Er ekki hætt við því að þetta deyi bara út? Jú, það er það sem ég hef áhyggjur af, það er þá í fjórða skipti sem glerblástur leggst af á Íslandi,“ segir Sigrún.