Einn hvalur bindur kolefni á við þúsundir trjáa, að því er fram kemur í nýlegri skýrslu sem undirstofnun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gaf út. Edda Elísabet Magnúsdóttir sjávarlíffræðingur segir að þetta ætti að beina sjónum okkar að mikilvægi vistkerfis sjávar í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.
Hún útskýrir þessa staðhæfingu í skýrslunni, sem Time Magazine fjallaði um á dögunum, þannig að hvalir sjái svifþörungum meðal annars fyrir mikilli næringu í formi úrgangs, og að svifþörungar framleiði helming súrefnis jarðar og bindi 40 prósent alls kolefnis. Þar að auki bindi stórhveli sjálf mörg tonn af kolefni í skrokkum sínum.
„Þessir hvalir eru náttúrulega gífurlega stórir og lifa lengi og halda í þennan gífurlega kolefnismassa út sína ævi og hindra þar af leiðandi losun þess út í kolefnishringrásina. Þetta snýst allt um kolefnishringrásina. Hún er sífellt í gangi, en hvert fer kolefnið? Það fer í lífverurnar líka. Og hvalirnir binda hlutfallslega, miðað við aðrar lífverur, mun meira. Svo náttúrulega, þegar þeir drepast, sökkva þeir flestir – auðvitað ekki allir – niður til botns og flytja með sér þessi tonn af kolefni niður á botn sjávar þar sem það sleppur ekki út í kolefnishringrásina,“ segir Edda Elísabet Magnúsdóttir.
Heyra má viðtalið við Eddu Elísabetu úr Morgunútvarpi Rásar 2 í heild sinni í spilaranum hér að ofan.